Fyrirtækið Primex hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Rúnar Marteinsson framleiðslustjóri og Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir, markaðsstjóri Primex veittu verðlaununum viðtöku. Á Nýsköpunarþingi var stjórnun nýsköpunar gerð að umfjöllunarefni og voru aðilar úr atvinnulífinu fengnir til að segja frá reynslu sinni og verkefnum á þessu sviði.
Primex er á Siglufirði, framleiðir kítin og kítósan úr rækjuskel en kítosan er verðmætt og eftirsótt efni, sér í lagi á erlendum mörkuðum. Frá því fyrirtækið hóf framleiðslu árið 1999 hefur það náð góðri markaðsstöðu í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu auk þess sem fyrirtækið hóf nýlega sölu inn á markað í Rússlandi.
Hágæða kítosan hefur mjög eftirsótta eiginleika til framleiðslu á fæðubótarefnum, lausasölulyfjum, sárameðferðarefnum og snyrtivörum auk þess að vera notað í vínframleiðslu og nú í auknum mæli í matvæli. Í matvælaframleiðslu er efnið notað sem náttúrulegar trefjar og til að lengja geymsluþol og hefur þessi nýi notkunarmöguleiki opnað fyrirtækinu fleiri tækifæri. Það sem áður var úrgangur er nú hráefni.
Upphaflega hugmyndin að fyrirtækinu sneri að því hvernig auka mætti nýtingu á sjávarafurðum með því að nýta úrgang sem hráefni auk þess að virða umhverfissjónarmið. Rækjuskel hafði árum saman verið hent í sjóinn og ljóst var að það gat ekki gengið til framtíðar.
Eftir að hafa fræðst um möguleika og tækifæri efnisins kítósan og kynnt sér framleiðsluaðferðir og markaði, ákváðu fyrirtækin Rammi á Siglufirði og SR-Mjöl að stofna fyrirtæki í kringum hugmyndina og reisa verksmiðju staðsetta á Siglufirði. Úr varð fyrirtækið Kítín, síðar Primex. Gerður var samningur við bandaríska fyrirtækið Vanson um kaup á þekkingu varðandi uppbyggingu á verksmiðju og framleiðsluaðferðum. Framleiðsla á eigin neytendavörum Langstærstur hluti framleiðslu Primex er til útflutnings en brot af framleiðslunni á Siglufirði er nýtt í eigin neytendavörur undir vörumerkjunum LipoSan og ChitoClear.
LipoSan er fitubindiefni með hinum náttúrulegu trefjum sem kítósan inniheldur og hafa þann einstaka eiginleika að draga til sín fitu úr fæðunni sem neytt er og hindra upptöku hennar. ChitoClear er hins vegar sárasprey og gel fyrir dýr og er efnið mjög græðandi og dregur úr sársauka og kláða í og við sár. Auk þess virkar það gegn bakteríu- og sveppamyndun.
ChitoClear hefur verið selt á innanlandsmarkaði og í Þýskalandi. ChitoClear hefur aðallega verið markaðssett fyrir dýr en efnið er líka gott fyrir menn. Frá árinu 2001 hefur Primex selt kítósan til fyrirtækja bæði í Evrópu og Bandaríkjunum sem framleiða vörur til að stoppa blæðingar og græða sár á fólki.
Árið 2004 hlaut bandarískt fyrirtæki viðurkenningu fyrir kítósanplástra sem innihalda kítósan framleitt hjá Primex, sem ein af topp tíu uppfinningum í hernaði. Öflug virkni þessa alíslenska efnis til að stöðva blæðingar hefur bjargað hundruðum mannslífa. Framtíðin grundvallast á útflutningi kítósans. Framleiðsla Primex mun til framtíðar grundvallast á útflutningi kítósans sem hráefnis fyrir aðra framleiðendur. Samhliða er verið að skoða möguleika á að auka fjölbreytni í framleiðslu eigin neytendavara, t.d. á snyrtivörum og græðandi smyrslum. Íslenska kítósanið er hágæða efni og liggur mikil þróunarvinna og rannsóknir á virkni efnisins að baki framleiðslunni.
Styrkur fyrirtækisins liggur í uppruna, hreinleika og gæðum hráefnisins sem kítosan er unnið úr þ.e. Norður-Atlandshafsrækjunni, hreinleiki íslenska vatnsins og þeirri miklu reynslu, þekkingu og aðstöðu sem skapast hefur hjá fyrirtækinu. Þessi gæði, reynsla og þekking hafa gert fyrirtækinu kleift að færa sig inn á verðmætari markaði. Hjá fyrirtækinu í dag starfa fjórtán sérþjálfaðir starfsmenn sem hafa komið fyrirtækinu á kortið á kröfuhörðum mörkuðum erlendis, segir í tilkynningu.
Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012 Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
Heimild: Mbl.is