Pollamót Þórs og Icelandair 2013, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 26. skiptið á Þórssvæðinu á Akureyri 5. og 6. júlí næstkomandi. Mikið verður um dýrðir og flott skemmtiatriði á mótssvæðinu við Hamar bæði á föstudags- og laugardagskvöldi
Auk þess verður félagsheimilið Hamar opnað á fimmtudagskvöldinu fyrir mótsgesti og dregið verður þar í riðla. Leikið er á föstudag og laugardag.
Stefnt er að því að mótið verði sannkölluð fjölskylduhátíð, leiktæki verða á svæðinu fyrir börn allan tímann og á föstudagskvöldinu sem og á laugardagskvöldinu verður grillað og hægt verður að kaupa veitingar gegn vægu gjaldi. Metnaðarfull skemmtidagskrá verður bæði kvöldin.
Ókeypis tjaldstæði eru í boði á svæðinu fyrir þátttakendur og fjölskyldur þeirra en sú nýjung verður að rukkað verður kr. 1000 fyrir rafmagn.
Keppt er í þremur flokkum karla:
- Polladeildin er fyrir knattspyrnumenn 30 ára og eldri. – Ef menn verða þrítugir á árinu teljast þeir gjaldgengir.
- Lávarðadeildin er fyrir knattspyrnumenn 40 ára og eldri. – Ef menn verða fertugir á árinu teljast þeir gjaldgengir.
- Öðlingadeildin er fyrir knattspyrnumenn 45 ára og eldri. – Ef menn verða fjörutíu og fimm á árinu teljast þeir gjaldgengir.
Keppt er í tveimur flokkum kvenna:
- 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild.
- 30 ára og eldri í Ljónynjudeild.