Eftirfarandi pistill birtist á vef Fjallabyggðar og er eftir Elías Pétursson bæjarstjóra.

Undanfarnar tvær vikur hafa verið okkur nokkuð mótdrægar hér í Fjallabyggð, á hefur gengið með einangrun, snjóflóðahættu og snjóflóðum. Allt hefur þetta verið mér lærdómur og efni til aðdáunar á ykkur íbúar góðir. Mér hefur þótt hreint magnað að fylgjast með því hvernig samfélagið hér í Fjallabyggð hefur tekið öllu sem að höndum hefur borið með yfirvegun og af stóískri ró. Ljóst er að hér býr fólk sem kann að takast á við óblíð og óútreiknanleg náttúruöflin, fólk sem lætur veður og ófærð ekki trufla sig umfram það sem þarf og er eðlilegt.

Þann 20. janúar féll snjóflóð á skíðaskálann í Skarðsdal, mannvirki sem við hann standa og annan snjótroðara skíðasvæðisins svo það helsta sé talið. Ljóst er að um mikið tjón er að ræða en mestu skiptir að ekki urðu slys né manntjón. Nú er unnið að hreinsun svæðisins og verðmætabjörgun og gengur sú vinna vel. Ef veður verður hagstætt næstu tvær vikur má reikna með því að skíðasvæðið verði opnað aftur um eða fyrir miðjan febrúar. Ljóst er að framundan er uppbygging á nýjum stað, í því verkefni mun Fjallabyggð standa þétt að baki Leyningsáss, eiganda og rekstraraðila skíðasvæðisins.

Lokanir og einangrun undanfarinna daga sem og lokanir síðasta vetrar hafa leitt rækilega fram þá brýnu þörf sem er á úrbótum á samgöngum til og frá sveitarfélaginu. Lausnin er í raun einföld, grafa þarf tvenn göng, annarsvegar frá Ólafsfirði til Dalvíkur og hinsvegar frá Siglufirði yfir í Fljót. En um leið og lausnin er einföld þá er vegferðin að henni klárlega ekki eins einföld og ljóst að við munum engu ná fram nema með því að tala fyrir bættum samgöngum hvar og hvenær sem því verður við komið. Sama á við um úrbætur er varða bætt afhendingaröryggi rafmagns og bætt og öflugri gagnasambönd. Grundvöllur nútímasamfélags eru tryggar og góðar flutningsleiðir, þar eru undir samgöngur í lofti láði og legi, flutningskerfi rafmagns og gagnaflutningsleiðir. Ásættanlegar flutningsleiðir, hvort sem er fyrir fólk, rafmagn eða gögn eru einnig forsenda þróunar samfélaga inn í framtíðina.

Þegar einangrun er nánast algjör, snjóflóð hefur fallið, og hús hafa verið rýmd þá er ekki óeðlilegt að upp í hugann komi spurningar og vangaveltur vakni. Að ekki sé talað um þegar, ofan á allt hitt, fréttir berast af því að varðskip sé á leið til okkar að ná í sjúkling sem þarfnast innlagnar á spítala. Ég fór í það minnsta að velta því fyrir mér hvað legðist með Fjallabyggð, hvað legðist á móti og hvað þyrfti að gera til að lágmarka það sem reynst gæti okkur mótdrægt til framtíðar.

Mín niðurstaða er að nánast allt leggist með okkur hér í Fjallabyggð, hér býr duglegt fólk með frumkvæði, við búum að frábærum skólum allt frá leikskóla til framhaldsskóla, samgöngur innan sveitarfélagsins eru góðar, atvinnulíf er fjölbreytt og stendur traustum fótum, menningarlíf er öflugt að ekki sé talað um söfnin og í umhverfi okkar og þróun heimsins búa gríðarleg tækifæri sem við eigum alla möguleika á að grípa. Með öðrum orðum þá eru hér allar forsendur til þess að samfélagið getir þróast og eflst til langrar framtíðar.

Megin veikleikarnir sem ég í þessum pælingum mínum fann snúa að áðurnefndum flutningskerfum, samgöngum til og frá sveitarfélaginu, veiku flutningskerfi raforku og vöntun á ljósleiðara í öll hús. Allt eru þetta atriði sem eru á forræði annarra og þá helst á forræði ríkisins.

Niðurstaða greiningar minnar, sem gerð var í hríðarkófi síðustu viku, er að hér sé allt til alls og tækifærin allt um kring. Það eina sem vantar er að okkur sé séð fyrir tengingum sem nauðsynlegar eru hverju nútímasamfélagi. Þar mun Alþingi þurfa að taka til höndum til dæmis með bættum og öruggari samgöngum.

Að síðustu vil ég nefna að á mánudaginn komandi gengst sveitarfélagið fyrir opnum íbúafundi á TEAMS. Fundarefnið er atburðir undanfarinna daga og viðbrögð við þeim, á fundinn mæta fulltrúar  Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar og Almannavarna. Ég vil hvetja íbúa til að senda  spurningar í netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is, öllum spurningum verður svarað.

Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg undanfarna daga.