Kínverski auðkýfingurinn Huang Nubo, sem kaupa vill Grímsstaði á Fjöllum, segir óvíst að stjórnvöld í Peking samþykki gjörninginn vegna þess uppnáms sem málið hafi valdið.
Þetta kemur fram í viðtali Huangs við fréttastofu Reuters. Huang, sem er fyrrverandi embættismaður, segist hafa óskað eftir samþykki fyrir kaupunum hjá kínverskum stjórnvöldum, en þau kunni að hvetja hann til að hætta við til að skapa ekki óánægju milli Íslans og Kína.
Verði það niðurstaðan muni hann hætta við. Það kunni að taka stjórnvöld í Peking allt að hálft ár að komast að niðurstöðu. Hann telji þó að kínverska stjórnin hafi enga ástæðu til að hafna þessum kaupum. Ferðamennska sé vettvangur tvíhliða samskipta. Í frétt Reuters segir málið undirstrika vaxandi tortryggni í garð Kínverja, ekki síst á Vesturlöndum.
Rúv.is greinir frá.