Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá , VÍS og Samgöngustofa gerðu haustið 2015 könnun á öryggi barna í bílum. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 30 ár en á árunum 1985 til 2011 voru árlega gerðar kannanir en eftir 2011 hafa þær verið gerðar annað hvert ár. Það er rétt að skipta þessu tímabili í tvennt. Annarsvegar „umferðarkannanirnar“ sem gerðar voru á árunum 1985 til 1995 af Umferðarráði og lögreglunni en þær voru ekki framkvæmdar við leikskóla og hinsvegar „leikskólakannanir“ sem hafa verið framkvæmdar frá 1996 til dagsins í dag.
Nú liggur fyrir niðurstaða könnunarinnar 2015 sem gerð var við 60 leikskóla í 25 bæjarfélögum víða um land með 2.236 þátttakendum. Félagar í slysavarna deildum og björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar víða um land, starfsfólk tryggingafélaganna Sjóvár,VÍS og starfsfólk Samgöngustofu sáu að þessu sinni um
framkvæmd könnunarinnar.
Könnunin var gerð við leikskólann Leikhóla í Ólafsfirði árið 2015 og var útkoman allt annað en góð, aðeins 68% barna í Ólafsfirði nota viðeigandi öryggisbúnað í bílum. Þá voru 11% laus í bílnum án öryggisbúnaðar. Þannig voru 21% leikskólabarna í Ólafsfirði í beltum sem voru ófullnægjandi öryggisbúnaður. Siglufjörður tók ekki þátt í könnuninni 2015.
Árið 2013 voru 20% barna á Siglufirði og í Ólafsfirði laus í bílunum eða notuðu ekki fullnægjandi öryggisbúnað.
Alla könnunina má lesa á vef Fjallabyggðar.