Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari koma fram á opnunartónleikum Berjadaga í Ólafsfjarðarkirkju fimmtudaginn 3. ágúst kl. 20:00.
Einar Bjartur Egilsson leikur á píanó og þríeykið galdrar fram sanna hátíðarstund fyrir gesti. Þau leika saman dúó eftir jafnólík tónskáld og Reinhold Gliere (1874-1956) og Antonio Vivaldi (1678-1741) en hjónin líta svo hvor í sína áttina: Guðný lítur til kventónskálda okkar, þeirra Karólínu Eiríksdóttur og Jórunnar Viðar. „Sameindir” er verk fyrir fiðlu og selló, sem Karólína tileinkaði Guðnýju og Gunnari. Guðný leikur einnig hið þekkta sönglag, ,Vökuró’, eftir Jórunni. Gunnar Kvaran, sellóleikari, sækir hinsvegar í eldri músík og flytur úrval tónsmíða eftir Jóhann Sebastian Bach, Luigi Boccherini og dregur fram hina þekktu Vokalísu eftir Sergei Rachmaninov.