Nú er unnið að skráningu allra húsa í Dalvíkurbyggð sem byggð voru fyrir 1950. Forstöðumaður byggðasafnsins á Dalvík segir slæmt hversu mörg hús frá þessum tíma hafi verið rifin.

Fyrsta áfanga þessa verkefnis er lokið og þar með búið að safna upplýsingum og skrá sögu um þrjátíu húsa á Dalvík. Í framhaldinu verða svo önnur hús í sveitarfélaginu, frá þessum tíma skráð, hús í Svarfaðardal, Skíðadal og á Árskógsströnd. Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafnsins Hvols á Dalvík, segir að í heildina verði þetta á bilinu 100-150 hús.Öll vitneskja hjálpi til við að meta hvort hús hafi varðveislugildi eða ekki og henni sýnist sem svo sé um öll húsin sem þegar hafi verið skráð.

Íris segir svona skráningu nýtast á marga vegu, ekki síst ef endurbyggja eigi þessi gömlu hús eða breyta byggð og skipulagi í kringum þau. Þá skipti máli að þekkja sögu þeirra og byggingastíl. Svo geti þessar upplýsingar nýst við mótun byggðar í framtíðinni. En Íris segir slæmt hversu mörg gömul hús í Dalvíkurbyggð hafi verið rifin. En saga þeirra verði engu að síður skráð, þó þau séu horfin. Fólk hafi áður fyrr ekkert endilega hugsað mikið um gildi þess að halda í gömul hús en skráningin veki fólk til meðvitundar.

Heimild: Rúv.is