Síðasti opnunardagur þjónustustöðvar Olís í Ólafsfirði var á sunnudaginn. Bæjarbúar eru ekki sáttir með þessa lokun, enda skerðing á þjónustu við íbúa. Olís leitar að áhugasömum aðila til að taka við rekstri stöðvarinnar í samstarfi við Olís. ÓB sjálfsafgreiðslustöð verður sett upp á staðnum í staðin fyrir þjónustustöðina og þar verða hagstæðari kjör.
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur fundað með forráðamönnum Olís og ítrekað óánægju sína með lokun stöðvarinnar í Ólafsfirði.
Sem hluti af umbreytingarvegferð Olís verður þjónustustöðvum Olís í Ólafsfirði, á Skagaströnd og í Fellabæ breytt í ÓB sjálfsafgreiðslustöðvar.
Á næstu árum stefnir Olís að því að útvíkka þjónustu- og vöruframboð þjónustustöðva til að mæta breyttum þörfum viðskiptavina. Liður í þeirri vegferð felur í sér fækkun og stækkun þjónustustöðva og af þeim sökum verður tilteknum staðsetningum breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar. Í framhaldinu verður vöru- og þjónustuframboð eflt í Olís þjónustumiðstöðinni á Siglufirði. Hagstæðari kjör verða á sjálfsafgreiðslu ÓB í Ólafsfirði.