Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 31 árs gamlan karlmann í 21 mánaðar fangelsi, þar af 19 mánuði skilorðsbundið, fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Maðurinn ók m.a. á 148 km hraða gegnum Múlagöngin milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og 160 km hraða gegnum Héðinsfjarðargöng.
Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi verið á leið á bíl frá Akureyri til Siglufjarðar í apríl á síðasta ári. Maðurinn, sem var ökuréttindalaus, varð var við lögreglu á Dalvík og jók þá hraðann og reyndi að flýja undan lögreglunni. Hann ók gegnum Múlagöng á 148 km hraða en þar er hámarkshraði 50 km á klukkustund. Þá ók hann á allt að 163 km hraða í átt til Ólafsfjarðar eftir að komið var út úr göngunum og á 100 km hraða gegnum Ólafsfjörð. Loks ók hann gegnum Héðinsfjarðargöng á 160 km hraða þar sem hámarkshraði er 70 km.
Þá var maðurinn með 2,2 grömm af marijúana í bíl sínum þegar lögreglan stöðvaði hann á Þingvallastræti á Akureyri í júní í fyrra.
Maðurinn játaði bæði brotin. Hann á langan sakaferil að baki og hefur ítrekað verið dæmdur fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot. Árið 2007 var hann dæmdur í 3 og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til ráns og fjársvika, brennu og nytjastuld.
Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi gert raunhæfa tilraun til að vinna bug á fíkniefnamisnotkun sinni. Hann sé nú í fastri vinnu og hafi ásamt sambýliskonu tvö börn á sínu framfæri. Ákvað dómurinn því að skilorðsbinda mestan hluta dómsins.