Framkvæmdir standa yfir við gerð nýs hringtorgs á mótum Hringvegar og Lónsvegar við bæjarmörk Akureyrarbæjar og Hörgársveitar. Áskorun hefur verið að sinna framkvæmdum í nánd við mikla umferð en vegurinn er einn sá umferðarþyngsti á Norðurlandi. Áætlað er að verkinu ljúki í lok október á þessu ári.

Innifalið í verkinu er gerð á nýju ræsi fyrir Lónsá undir Hringveg en það mun liggja þvert undir nýja hringtorgið. Einnig er innifalið í verkinu gerð göngustíga sem og gerð nýrrar aðkomugötu frá Lónsvegi að lóð ÁK-smíði, vestan við Hringveg. Jafnframt verður endurgerð tenging að lóð Lónsbakka austan við Hringveg.

Umferðarþungi er mikill á þessum vegkafla sem liggur á mörkum tveggja sveitarfélaga, annars vegar Akureyrarbæjar og hins vegar Hörgársveitar en sveitarfélagsmörkin liggja eftir Lónsá.

Meðalumferð á dag yfir árið (ÁDU) er 5.100 bílar á sólarhring norðan Lónsvegar og 5.800 bílar sunnan Lónsvegar. Á sumrin bætast um 2.000 bílar við á hverjum sólarhring. Á Lónsveginum er umferðin um 520 bílar á sólarhring yfir árið.

Verkinu er skipt í þrjá megin fasa og byrjaði verktakinn, Nesbræður ehf. Akureyri, á fasa tvö í byrjun júlí eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.

 

Heimild: Vegagerðin.is