Nýr meirihluti hefur verið myndaður í bæjarstjórn Fjallabyggðar en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í gær þegar annar bæjarfulltrúi framsóknarmanna sagði sig úr Framsóknarfélagi Fjallabyggðar.
Í bókun í bæjarstjórn Fjallabyggðar, var lögð fram bókun frá sex bæjarfulltrúum, sem mynda nýjan meirihluta. Þetta eru þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokks, einn fulltrúi Framsóknarflokks, bæjarfulltrúi VG og einn bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem er fulltrúi Samfylkingarfélags Ólafsfjarðar í bæjarstjórninni.
Samkvæmt þessu eru tveir fulltrúar Samfylkingarinnar frá Siglufirði og einn fulltrúi Framsóknarflokks í minnihluta.
Í bókuninni kemur fram, að nýi meirihlutinn lýsi yfir stuðningi við störf núverandi bæjarstjóra og að hann hafi áfram óskorað umboð meirihluta bæjarfulltrúa Fjallabyggðar til sinna starfa.
Í ályktun, sem Samfylkingarfélag Siglufjarðar hefur sent frá sér, segist félagið lýsa yfir vilja til að starfa að öllum góðum málum sem stuðla að betra mannlífi og samfélagi í sveitarfélaginu Fjallabyggð. Er nýjum meirihluta óskað velgengni í þeim störfum sem framundan eru.
mbl.is greinir frá.