Pétur Heiðar Kristjánsson hefur verið ráðinn sem nýr aðalþjálfari Knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis og er samningurinn til tveggja ára. Frá þessu er greint á vef dalviksport.is.
Pétur er ungur og efnilegur þjálfari, fæddur árið 1982, en hann ætti að vera Dalvíkingum vel kunnugur því árin 2014 og 2015 var hann m.a. spilandi þjálfari liðsins.
Hann hefur einnig leikið fyrir félög eins og Þór, Keflavík, KA og Magna. Hann á að baki yfir 70 leiki fyrir Dalvík/Reyni frá árinu 2012.
Undanfarin ár hefur hann m.a. starfað sem aðstoðarþjálfari m.fl. KA sem og þjálfari yngri flokka.
Jóhann Hreiðarsson hefur einnig verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari liðsins en hann kom í þjálfarateymi Dalvíkur/Reynis fyrir síðasta tímabil. Hann var þjálfari Dalvíkur/Reynis tímabilið 2009 og svo aðstoðarþjálfari nokkur tímabil þar á eftir.
Siguróli Kristjánsson er nýr aðstoðarmaður í teyminu og mun starfa sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar. Undanfarin ár hefur hann mest starfað í þjálfarateymi ÞórKA en einnig hefur hann verið í spennandi verkefnum innan KSÍ.
Hann mun starfa sem ráðgjafi knattspyrnudeildar í heild, jafnt fyrir þjálfarana, leikmenn og stjórnarmenn félagsins.
Heimild: dalviksport.is