Hátíðardagur var á Skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði dag, þar sem formleg opnun á töfrateppinu og Súlulyftu fór fram að viðstöddum fjölda fólks.
Anna Marie Jónsdóttir hóf söfnun fyrir töfrateppinu fyrir nokkrum árum og náði til fjölda fólks og fyrirtækja sem lögðu þessu verkefni lið. Þetta breytir algjörlega allri aðstöðu í fjallinu fyrir fjölskyldur með börn sem eru að byrja skíðaiðkun.
Hjalti Gunnarsson formaður skíðafélagsins, veitti þessari veglegu gjöf móttöku fyrir hönd íbúa Fjallabyggðar, og Anna Marie gangsetti töfrateppið undir dynjandi lófaklappi viðstaddra.
Egill Rögnvaldsson fyrrum umsjónarmaður Skíðasvæðisins gangsetti nýju Súlulyftuna og var fyrsti gesturinn til að fara upp með lyftunni Andrés Stefánsson rafvirki og skíðakappi.
Veitingar og lifandi tónlist voru í boði Fjallabyggðar og L7-verktaka.