Dagana 20. – 23. ágúst verður haldin norræn þjóðlistahátíð á Akureyri. Þar koma fram hæfileikaríkir tónlistarmenn og dansarar frá Norðurlöndunum og sýna hvaða kraftur, fegurð og fjör býr í listformi byggðu á rótgrónum hefðum. Aldrei fyrr hefur verið haldin listahátíð með þjóðtónlist og þjóðdansi allra Norðurlanda. Á hátíðinni má heyra og sjá kraftmiklar hljómsveitir, fjörugan dans, flottan söng og hljóðfæraleik. Einnig verða mörg námskeið í boði, s.s. að spila á kantele og þjóðlagafiðlu, syngja þjóðlög frá Svíþjóð, Færeyjum og jafnvel Grænlandi og dansa hambo, polska og vikivaka. Tónleikar, danssýningar og námskeið fara fram um allan Akureyrarbæ, frá morgni fram á nótt, inni jafnt sem úti, fyrir gesti og gangandi, svo bærinn iðar af fjöri. Heimasíða hátíðarinnar er www.tradition.is.

Í samstarfi við tónlistarskóla landsins verður ungu og upprennandi tónlistarfólki boðin þátttaka í hátíðinni með því að koma fram á Sprotasviði.

Framkvæmdastjóri hátíðarinnar er Guðrún Ingimundardóttir, tónlistarfræðingur og íslenski fulltrúinn í Norrænu þjóðtónlistarnefndinni.

tradit_tomor