Knattspyrnumaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson úr KA er íþróttakarl Akureyrar árið 2022 og hjólreiðakonan Hafdís Sigurðardóttir úr HFA er íþróttakona Akureyrar 2022.

Í öðru sæti voru þau Baldvin Þór Magnússon frjálsíþróttamaður úr UFA og Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupkona úr SA. Í þriðja sæti voru þau Óðinn Þór Ríkharðsson handboltamaður úr KA og Rut Jónsdóttir handboltakona úr KA/Þór.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2022 var lýst á verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi í vikunni. Alls bárust 27 tilnefningar frá 9 aðildarfélögum ÍBA til íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar árið 2022, 15 íþróttakonur og 12 íþróttakarlar. Úr þeim  tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.

Á athöfninni veitti fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 13 aðildarfélaga ÍBA vegna 215 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 10 afreksefnum styrki. Samtals hlutu 20 einstaklingar afreksstyrki fyrir samtals rúmar 5 milljónir á athöfninni í gær.

Nökkvi Þeyr er uppalinn knattspyrnumaður hjá Dalvík. Árið 2022 skoraði hann hvorki meira né minna en 17 mörk í 20 leikjum fyrir KA í deild þeirra bestu sem og nokkur mörk í bikarkeppninni. Hann endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar þrátt fyrir að missa af síðustu 7 leikjum tímabilsins eftir að draumur hans um atvinnumennsku rættist er hann gekk til liðs við KV Beerschot í Belgíu í byrjun september. Í lok tímabilsins var hann valinn í lið ársins þar sem hann var markahæsti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn og að lokum var hann einnig valinn besti leikmaður deildarinnar bæði af sérfræðingum sem og leikmönnum/þjálfurum deildarinnar. Með framgöngu sinni vann Nökkvi Þeyr sér inn sæti í A landsliði karla í knattspyrnu á árinu 2022 og spilaði hann sinn fyrsta A landsleik núna í janúar 2023. Þá var Nökkvi Þeyr einnig valinn Íþróttakarl KA árið 2022.

Hafdís Sigurðardóttir er ein fremsta hjólreiðakona Íslands í dag. Hún átti sitt besta keppnistímabil árið 2022 og stóð uppi sem tvöfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari, bæði í götuhjólreiðum og tímatöku í A flokki kvenna. Hafdís var valin til að keppa fyrir Íslands hönd á EM í Þýskalandi, bæði í götuhjólreiðum og tímatöku. Þar lagði Hafdís sig alla fram og var með frábæran tíma í tímatökunni og hjólaði síðan tæpa 90 km í í hrikalega erfiðri og hraðri keppni götuhjólreiða. Hafdís er farin að reyna fyrir sér í öðrum greinum og keppti hún á Íslandsmótinu í criterium og lenti þar í öðru sæti. Þá keppti hún einnig á Íslandsmótinu í cyclocross og lenti þar í þriðja sæti. Hafdís fór til Svíþjóðar í júlí og keppti þar í Postnord U6 og endaði þar í fjórða sæti. Hún var í lok tímabilsins valin hjólreiðakona Íslands hjá HRÍ og hjólreiðakona HFA fyrir keppnisárið 2022.

 

 

Á athöfninni voru afhentar fjórar heiðursviðurkenningar frá fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrar fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta á Akureyri. Þau sem hlutu þær voru:

  • Herbert Bárður Jónsson
  • Páll Jóhannesson Þór
  • Sigríður Jóhannesdóttir KA
  • Þormóður Einarsson

Páll Jóhannesson (Palli Jó) er fæddur 13. febrúar 1958. Páll lét strax til sín taka sem foreldri í starfi Þórs og spurði ekki hvað félagið gæti gert fyrir hann, heldur hvað hann gæti gert fyrir félagið. Páll sat í stjórn félagsins í mörg ár og á tímabili ritari aðalstjórnar Þórs. Páll var ritstjóri heimasíðu Þórs í mörg ár og sá um viðtöl, ljósmyndir, umfjallanir í öllum greinum og aldursflokkum og gerði heimasíðu Þórs að mjög lifandi og öflugum miðli. Fáir félagsmenn búa yfir eins mikilli þekkingu og vitneskju úr sögu Íþróttafélagsins Þórs og Páll, enda er saga félagsins honum hugleikin og er til dæmis ljósmyndasafn hans úr félagsstarfi Þórs dýrmæt heimild um sögu sem var og sögu sem enn er verið að segja. Páll er enn að vinna að verkefnum fyrir félagið sitt og fyrir óeigingjarnt starf í þágu Þórs hefur Páll hlotið gullmerki félagsins

 

Herbert Bárður Jónsson (Hebbi) er fæddur 13. desember 1936 og hefur frá unga aldri sett mark sitt á starf Íþróttafélagsins Þórs. Rétt fyrir árið 1960 var Herbert kjörinn í aðalstjórn Þórs og sat þar í mörg ár, m.a. sem hægri hönd formanns til árisins 1980. Í stjórn Þórs vann hann m.a. ötullega að málefnum körfuboltans og handboltans hjá félaginu þegar þessar greinar voru að slíta barnsskónum í félaginu. Eftir að Herbert sagði sig frá stjórnarstörfum var hann áfram fyrirferðarmikill í störfum fyrir félagið, t.d. sá hann um öfluga getraunaþjónustu félagsins í mörg ár. Herbert er enn í dag nánast daglegur gestur í Hamri félagsheimili Þórs þar sem hann leggur sitt að mörkum til félagsins. Fyrir óteljandi verkefni, hjarta og sál í þágu íþróttahreyfingarinnar á Akureyri og Íþróttafélagsins Þórs hefur Herbert verið veitt gullmerki Þórs, gullmerki ÍSÍ, silfurmerki ÍBA og heiðursfélaganafnbót Þórs.

Þormóður Einarsson (Móði) er fæddur 14. nóvember árið 1943 og hefur nánast frá fæðingu verið tengur Knattspyrnufélagi Akureyrar sterkum böndum. Þormóður lék knattspyrnu með ÍBA og seinna meir með KA við góðan orðstýr og var m.a. fyrirliði KA sem fór í fyrsta skipti upp í efstu deild. Þormóður var fyrsti formaður knattspyrnudeildar KA á sama tíma og hann var leikmaður og fyrirliði liðsins og eiginkona hans, Elínborg Árnadóttir þvoði búningana af öllum flokkum félagsins. Síðar var Þormóður um skeið framkvæmdastjóri KA. Handlaginn og bóngóður hefur Þormóður látið KA njóta góðs af sínum kröftum í gegnum árin í fjölmörgum verkefnum sem drifið hafa á daga félagsins. Um margra árabil fór ekki fram sá handboltaleikur hjá KA nema að Þormóður væri tímavörður eða ritari í sjálfboðastarfi. Fyrir óþrjótandi starf í þágu Knattspyrnufélags Akureyrar og íþróttahreyfingarinnar á Akureyri hefur Þormóður hlotið gullmerki KA, gullmerki KSÍ, silfurmerki HSÍ og verið sæmdur heiðursfélaganafnbót KA.

 

Sigríður Jóhannsdóttir (Sigga systir) er fædd 26. desember 1963 og lék á sínum yngri árum knattspyrnu með Knattspyrnufélagi Akureyrar. Utan vallar hefur Sigríður gegnt ábyrgðarstörfum fyrir KA í áratugi og m.a. verið gjaldkeri Aðalstjórnar KA í fjölmörg ár samhliða því að vinna ötullega fyrir unglingaráð KA í handbolta. Á árum áður, fyrir tíma rafrænna lausna voru t.d. verkefni gjaldkera félaganna öðruvísi en í dag og hefur Sigríður staðið ótal stundum í KA heimilinu og tekið við æfingagjöldum eða greiðslum fyrir keppnisferðir hvenær sem var sólahringsins. Sigríður er svo sannarlega áræðanlegi sjálfboðaliðinn sem vinnur ómetanleg verkefni á bakvið tjöldin í stóru íþróttafélagi og gætir að því að hin fjölmörgu ósýnilegu verkefni séu leyst og unnin öllum til heilla.
Fyrir óeigingjarnt starf í þágu KA hefur Sigríður hlotið gullmerki félagsins.

Þetta er í 44. sinn sem íþróttamaður Akureyrar er kjörinn en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa nú 28 einstaklingar hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum alls.

Íþróttamenn Akureyrar 1979-2021:
1979 Gunnar Gíslason, handknattleikur og knattspyrna
1980 Haraldur Ólafsson, lyftingar
1981 Haraldur Ólafsson, lyftingar
1982 Nanna Leifsdóttir, skíði
1983 Nanna Leifsdóttir, skíði
1984 Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1985 Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1986 Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1987 Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1988 Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1989 Þorvaldur Örlygsson, knattspyrna
1990 Valdemar Valdemarsson, skíði
1991 Rut Sverrisdóttir, sund
1992 Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1993 Vernharð Þorleifsson, júdó
1994 Vernharð Þorleifsson, júdó
1995 Vernharð Þorleifsson, júdó
1996 Vernharð Þorleifsson, júdó
1997 Ómar Halldórsson, golf
1998 Vernharð Þorleifsson, júdó
1999 Vernharð Þorleifsson, júdó
2000 Ingvar Karl Hermannsson, golf
2001 Vernharð Þorleifsson, júdó
2002 Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2003 Andreas Stelmokas, handknattleikur
2004 Rut Sigurðardóttir, Tae Kwon Do
2005 Guðlaugur Már Halldórsson, akstursíþróttir
2006 Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2007 Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2008 Rakel Hönnudóttir, fótbolti
2009 Bryndís Rún Hansen, sund
2010 Bryndís Rún Hansen, sund
2011 Bryndís Rún Hansen, sund
2012 Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrna
2013 Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2014 Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2015 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016 Bryndís Rún Hansen, sund
2017 Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleikur
2017 Stephany Mayor, knattspyrna
2018 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2018 Hulda B. Waage, kraflyftingar
2019 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2019 Aldís Kara Bergsdóttir listhlaup
2020 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2020 Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup
2021 Brynjar Ingi Bjarnason, knattspyrna
2021 Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup
2022 Nökkvi Þeyr Þórisson, knattspyrna
2022 Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðar

 

Texti og myndir: akureyri.is