DalvíkRáðhús Dalvíkur

Niðurstöður úr könnun um húsnæðisþörf íbúa Dalvíkurbyggðar 55 ára liggur nú fyrir og hefur verið birt í fundargerð byggðarráðs Dalvíkurbyggðar.

Könnunin var skrifleg og var póstlögð til allra íbúa 55 ára og eldri í sveitarfélaginu í byrjun október, skilafrestur til 15. okt. 2020. Send var ein könnun til hjóna eða sambýlisfólks. Könnunin var ekki persónugreinanleg. Beinn kostnaður við könnunina er um innan við 80 þúsund og felst í pappír og póstburðagjöldum.

Ákveðið var að hafa könnunina í bréfformi þar sem álitið var að hluti svarenda hefði ekki tök á eða aðstæður til að svara netkönnun.
Alls voru send út 322 eintök. Alls skiluðu sér 103 svör eða 32% af útsendum könnunum sem er mjög gott m.v. skriflega könnun.
Af þeim sem skiluðu inn könnuninni voru 59 sem vilja búa áfram í eigin húsnæði. Þá má leiða að því líkum að þorri þeirra sem ekki skiluðu inn séu í sömu stöðu, þ.e. vilji búa áfram í eigin húsnæði.
Fimm svör bárust þar sem fólk sér fyrir sér að flytja úr Dalvíkurbyggð.

Alls var skilað inn 39 svörum þar sem fólk sér fyrir sér breytingar á búsetukostum á næstu árum.

Almennar grófar niðurstöður sýna eftirfarandi:

Breytingar á næstu 2 árum – alls 9 svör.

Þeir sem sjá fyrir sér breytingar á næstu tveimur árum búa flestir í eigin fasteign í dag. Flestir sjá fyrir sér að kaupa eigið húsnæði undir 40 miljónum, í raðhúsi, 60-100 fm að stærð. Mikilvægast er að eignin þarfnist ekki mikilla endurbóta og helmingur kýs að það sé bílgeymsla eða bílskúr. Flestir kjósa staðsetningu nálægt Dalbæ.

Breytingar innan 3ja til 5 ára – alls 7 svör.
Þeir sem sjá fyrir sér breytingar á næstu 3-5 árum búa flestir í eigin fasteign í dag. Flestir sjá fyrir sér að kaupa íbúð í búsetukjarna fyrir eldri borgara ef farið er í slíka uppbyggingu, á verðbilinu 30-40 miljónir, í raðhúsi, 60-150 fm að stærð. Mikilvægast er að eignin þarfnist ekki mikilla endurbóta og að það sé bílgeymsla eða bílskúr. Flestir kjósa staðsetningu nálægt Dalbæ.

Breytingar innan 10 ára – alls 16 svör:

Þeir sem sjá fyrir sér breytingar innan 10 ára búa flestir í eigin fasteign í dag. Flestir sjá fyrir sér að kaupa nýtt húsnæði byggt af öðrum eða kaupa notað húsnæði, á verðbilinu 30-40 miljónir, í raðhúsi, 60-100 fm að stærð. Mikilvægast er að að það sé bílgeymsla eða bílskúr og eignin þarfnist ekki mikilla endurbóta. Flestir kjósa staðsetningu nálægt Dalbæ.

Lengra en 10 ár eða óvíst hvenær vænt er breytinga – alls 7 svör:

Þeir sem sjá fyrir sér breytingar eftir 10 ár búa flestir í eigin fasteign í dag. Flestir sjá fyrir sér að kaupa íbúð í búsetukjarna fyrir eldri borgara ef farið er í slíka uppbyggingu, undir 30 miljónum, í
einbýli eða raðhúsi, 60-100 fm að stærð. Mikilvægast er að að það sé lágt verð, bílgeymsla eða bílskúr og eignin þarfnist ekki mikilla endurbóta. Staðsetning er talin mikilvæg en flestir kjósa
staðsetningu nálægt Dalbæ.

Ef horft er á núverandi búsetuhætti þeirra sem hyggja á breytingar á næstu árum eru langflestir sem búa í eigin fasteign í dag, einbýlishúsi, 100-150 fm eða 150 fm og stærra. Því má ætla að ef framboð af húsnæði fyrir 60 ára og eldri verður nægjanlegt og áætlanir fólks ganga eftir komi mikið af kjöreignum á markaðinn á næstu árum sem henta ungu fólki á barneignaaldri.
Nánari niðurstöður úr könnunni verða til yfirferðar hjá byggðaráði og sveitarstjórn í vinnu við húsnæðisáætlun Dalvíkurbyggðar 2021-2029.

Allt skjalið er aðgengilegt á vef Dalvíkurbyggðar.