Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í 2. deild karla í knattspyrnu hefur fengið góðan liðsstyrk en Nenad Zivanovic hefur gengið til liðs við félagið. Zivanovic þekkir vel til í íslenska boltanum en hann spilaði áður með Breiðabliki og Þór.

Þessi 35 ára gamli Serbi getur spilað allar stöður framarlega á vellinum en hann hjálpaði Þórsurum að komast upp úr fyrstu deildinni árið 2010.

Hann lék einnig með Breiðabliki við góðan orðstír frá 2006-2008 og skoraði meðal annars níu mörk í Pepsi-deildinni 2008. Hann hefur leikið alls 79 leiki á Íslandi og skorað 20 mörk.

Zivanovic hefur einnig leikið í Færeyjum á ferli sínum en hann var síðast á mála hjá FK Inđija í heimalandinu.