Föstudaginn 15.apríl fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í 19 ár.
Í fyrsta sæti í ár varð Friðrik Snær Björnsson, Varmahlíðarskóla, annað sætið hreppti Þorri Þórarinsson, Árskóla og í þriðja sæti var Jón Örn Eiríksson, Grunnskólanum austan Vatna. Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í mars og tóku nemendur frá Norðurlandi vestra, Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 17 nemendur í úrslitakeppnina. Af þeim voru þrír frá Árskóla, þrír frá Varmahlíðarskóla, þrír frá Grunnskólanum Austan Vatna, tveir frá Húnavallaskóla, tveir frá Höfðaskóla, einn frá Grunnskóla Fjallabyggðar og þrír frá Dalvíkurskóla.
Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, MTR, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu.