Á sameiginlegum fundi sjálfstæðisfélaganna í Ólafsfirði og á Siglufirði, sem haldinn var á bæjarskrifstofunum á Siglufirði þriðjudaginn þann 19. maí síðastliðinn var samþykkt eftirfarandi ályktun.
Ályktun;
Sjálfstæðisfélögin í Fjallabyggð mótmæla og harma boðaðan samruna ráðuneytisins á Menntaskólanum við Tröllaskaga, Menntaskólanum á Akureyri og Framhaldsskólans á Húsavík svo og þeim skorti á samráði sem verið hefur af hálfu ráðuneytisins við töku þessarar ákvörðunar við bæjarfulltrúa og trúnaðarmenn flokksins á svæðinu.
MTR hefur frá stofnun skólans aukið lífsgæði íbúa sveitarfélagsins og verið það fjögegg sem sveitarfélagið vill hlúa að og standa vörð um. Skólinn starfar eftir nýrri námskrá og útskrifar nemendur á þremur árum. Af ört vaxandi hópi nemenda má sjá að skólinn stendur undir öllum væntingum hvað varðar sérstöðu, gæði náms, fjölbreytni og þarfir nemenda. Starfsbraut skólans hefur t.a.m. sýnt og sannað að skólinn kemur til móts við alla nemendur. Fyrirhugaðar breytingar ráðuneytisins á rekstrarumhverfi skólans eru til þess fallnar að ógna starfsemi skólans, lækka menntunarstig í sveitarfélaginu og ýta undir fólksfækkun. Sjálfstæðisfélögin skora á ráðherra að skoða nánar aðrar leiðir til að ná markmiði um nauðsynlegar úrbætur á framhaldsskólastigi t.a.m. aukið samstarf milli framhaldsskóla á svæðinu.