Byggðastofnun hefur gert samantekt á áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástand á landsbyggðinni en í henni er mikilvægi ferðaþjónustunnar greint eftir svæðum og sveitarfélögum. Niðurstöður leiða í ljós að mörg sveitarfélög verða fyrir miklum búsifjum vegna ástandsins en að mati Byggðastofnunar verða níu sveitarfélög fyrir þyngstu höggi; eitt á Norðurlandi eystra, fimm á Suðurlandi og þrjú á Suðurnesjum.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fól Byggðastofnun þann 16. apríl sl. að vinna samantektina, með sérstaka áherslu á svæði þar sem ferðaþjónusta hefur haft mikla þýðingu varðandi atvinnutekjur og fjármál sveitarfélaga.
„Greiningin staðfestir að hrun ferðaþjónustunnar hefur gríðarleg áhrif á sveitarfélög landsins. Hún gefur einnig góðar vísbendingar um hvaða sveitarfélög og svæði í byggðalegu tilliti kunni að standa verst að vígi. Það er afar mikilvægt að hafa skýra mynd af stöðunni til þess að stjórnvöld og sveitarfélög geti brugðist vel við og hafið uppbyggingu að nýju,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Í samantektinni er gerð greining á því hvar höggið af ferðaþjónustunni verður harðast, sérstaklega með tilliti til atvinnuleysis og lækkunar atvinnutekna. Í útreikningunum voru settar upp þrjár sviðsmyndir. Bjartsýn sviðsmynd sem gerir ráð fyrir 30% minna atvinnuleysi, miðmynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði það sama næstu tólf mánuði og það er áætlað í maí og loks svartsýn mynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist og verði 30% meira næstu tólf mánuði. Einnig var áætlaður samdráttur á atvinnutekjum eftir helstu greinum, sem tengjast ferðaþjónustu, miðað við atvinnutekjur á árinu 2019. Þar er m.a. stuðst við erlenda kortaveltu og áætlun um samdrátt á henni.
Út frá þessu var reiknuð möguleg lækkun á útsvarsstofni einstakra sveitarfélaga. Samkvæmt þeim útreikningum dregur Byggðastofnun fram níu sveitarfélög sem geta orðið fyrir hvað þyngstu höggi vegna hruns ferðaþjónustunnar. Sveitarfélögin eru: Bláskógabyggð, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður á Suðurlandi, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar á Reykjanesskaga og Skútustaðahreppur á Norðurlandi eystra.
Fleiri sveitarfélög verða fyrir verulegum búsifjum vegna ástandsins en yfirlit um stöðu allra sveitarfélaga er í viðaukum I og II í samantekt Byggðastofnunar.
Ráðuneytið óskaði eftir því við Byggðastofnun að sambærileg greining verði unnin fyrir höfuðborgarsvæðið og er sú vinna hafin. Þá er hafin vinna nýskipaðs starfshóps við að safna saman samtímaupplýsingum um fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga á árinu 2020. Upplýsingarnar og gagnagrunnur gefur tækifæri til að áætla um horfur ársins að teknu tilliti til ýmissa þátta, m.a. þróun atvinnuleysis.