Í dag, 18. febrúar 2025 hefði ástkær bróðir minn átt 50 ára afmæli. Hann náði því miður ekki þeim áfanga í lifandi lífi, en við höldum hans minningu á lofti. Bjarni bróðir varð bráðkvaddur 11. apríl 2023.  Þann dag var hann í vinnu eins og síðustu 18 árin á undan á Raftækjalager Heimilistækja. Það reyndist hann síðasti vinnudagur en í ár hefði hann átt 20 ára vinnuafmæli á þeim stað.  Þennan þriðjudag, 11. apríl var hann nýkominn frá Ólafsfirði þar sem hann var með konu sinni og tengdafjölskyldu við Aðalgötu 42.  Hann hafði átt þar góða daga yfir páskana eins og oft áður og enginn sá fyrir að þetta væri hans síðasta frí.  Hann hafði þó nýlega greinst með háan blóðþrýsting, sem gæti hafa verið til staðar í einhver ár á undan án þess að hann vissi af því. Einnig var nýgreindur með kæfisvefn og sykursýki.  Allt þetta saman komið var víst banvæn blanda.

Hann Bjarni naut þess alltaf að vera í Ólafsfirði og fór þangað nánast á hverju ári í 25 ár eða meira til að eyða frídögum í firðinum, en hann fór reglulega á göngu þar með hundana, heimsótti Brimes eða Höllina til að horfa Liverpool leik eða kaupa sér góðan drykk. Hann tók oft ljósmyndir fyrir þennan vef bróður síns (Hedinsfjordur.is) sem birtar hafa verið með fréttum.  Fjölmargir Ólafsfirðingar flögguðu í hálfa stöng þegar þessar fréttir bárust og allnokkrir mættu í útförina. Fjölskyldan er þakklát fyrir þennan stuðning sem vinir og vandamenn sýndu.

Bjarni var vinamargur og var með yfir 1600 vini á samfélagsmiðlum. Margir gamlir skólafélagar, vinnufélagar og hans samferðamenn sem hann kynntist á lífsleiðinni.  Margir þekktu hann aðeins á fullorðinsárum og vil ég því skrifa hér nokkur orð um hans uppvöxt í Skipasundi 42 og gefa innsýn inn í hans góðu persónu.

Bjarni bróðir var sá þriðji í röðinni af okkur fimm systkinum og sá eini sem fæddist þegar fjölskyldan hafði búið í 3 ár í Barðavogi 42. Í ágúst árið 1975 var fjölskyldan aftur flutt í Skipasund 45 þegar afi Þorbjörn varð bráðkvaddur í vinnuslysi á Kleppsvegi.

Bjarni var fjórum árum eldri en ég (Magnús) og hafði ég því hann sem fyrirmynd alla ævi. Hann var mér alltaf mjög góð fyrirmynd frá því ég var ungur strákur og ruddi hann veginn fyrir okkur yngri systkinin. Bjarni var eins og við öll systkinin í Langholtsskóla, og var þar fyrirmyndarnemandi, stundaði námið af kappi og var sérstaklega góður í Landafræði, Íslensku og öðrum tungumálum. Hann fór síðan beint í Menntaskólann við Sund eins og eldri bræðurnir og var mestmegnis á Málabraut. Þar gekk honum vel og lærði meðal annars latínu, þýsku, frönsku, ítölsku, ensku og dönsku. Bjarni var einstaklega töluglöggur og gat munað ótrúlegustu kennitölur fólks sem hann var í litlum samskiptum við. Eins mundi hann allt kortanúmerið á vísakortinu sínu utanbókar og var því í litlum vandræðum þegar sölumenn hringdu til að bjóða honum varning til sölu.

Á okkar yngri árum þá lékum við okkur mikið saman. Fórum reglulega út á Langholtsskólalóð í knattspyrnu eða körfubolta, fórum á knattspyrnusvæði Þróttar í Sæviðarsundi og sóttum Félagsmiðstöðina Þróttheima á laugardögum en þar var hægt að spila billjard, borðtennis og fótboltaspil. Eins fórum við reglulega á völlinn þegar Þróttur var að spila í knattspyrnu.  Hann var alltaf til í að hafa yngri bróðir sinn með þótt hann væri með sínum vinum og naut ég góðs af því. Fjölskyldan í Skipasundi 42 voru 7 í heimili og því stundum þröngt í búi. Ein aukavinnan var að bera út Morgunblaðið og var það helmingurinn af Skipasundi sem var okkar hverfi. Bjarni var hvað duglegastur af okkur systkinum að blaðburðinum og sá einnig um rukkun í lok mánaðar. Honum var allstaðar vel tekið, en þó sérstaklega í Skipasundi 57 hjá Bergþóru gömlu, en hún bauð Bjarna oft inn í pönnukökur eða kræsingar, ef hann hafði tíma.

Bjarni æfði á yngri árum fótbolta með Þrótti en færði sig svo í blakið. Við bræður vorum sáum svo um boltana fyrir meistaraflokk Þróttar í blaki um árabil, og vorum alltaf mættir í Hagaskóla þegar var leikur. Á bakaleiðinni fengum við yfirleitt far með þjálfara liðsins, honum Fomma heitnum, en hann bjó í Drekavogi.

Bjarni datt á reiðhjóli stuttu eftir fermingu og sleit krossband svo hann var sífellt í hnémeiðslum eftir það og varð oft að hætta keppni þegar verkurinn kom, en hann fór aldrei í aðgerð til að láta laga þetta. Á Menntaskólaárunum æfði hann einn vetur með Ármanni í handbolta, en eina lausa staðan þar var í hægra horninu, svo það var frekar erfitt fyrir rétthenta manninn og nýliðann Bjarna. Síðar á lífsleiðinni fór minn kæri bróðir að spila pílu af kappi og var á mála hjá Pílufélagi Reykjavíkur en þar eignaðist hann marga góða vini og spilaði nánast í hverri viku.

En allir sem þekktu Bjarna vissu að hann væri mikill Liverpool-maður og Þróttari (Köttari 37). En á sínum yngri árum studdi hann einnig Juventus á Ítalíu, LA Lakers í NBA körfunni, en annars var hann alæta á íþróttir og gat horft á flest en fylgdist þó alltaf náið með Liverpool og Þrótti Reykjavík. Hin síðari ár var hann einnig liðtækur í golfi og spilaði reglulega á minningarmóti fyrir Norðan.

Bjarni naut þess líka að ferðast um landið með fjölskyldunni og síðar með mér og Alla frænda, en við þrír vorum bestu vinir og frændur og hittumst reglulega til að spila íþróttir eða fara saman í útilegu. Alli frændi var okkur alltaf sem bróðir, en hann lést í júlí 2021 eftir baráttu í áratug við krabbamein. Það var mikill missir fyrir okkur bræður þegar Alli frændi kvaddi þennan heim.

Eftir Menntaskólaárin fór Bjarni að vinna og hófst einnig leit að konu með virkara hætti en áður. Hann fór reglulega á djammið um helgar í leit þessari einu sönnu.  Hann fékk vinnu í Póstinum í Ármúla og var þar í böggladeildinni í nokkur ár. Eins og oft áður þá reddaði hann bróður sínum (Magnúsi) vinnu á sama stað. Á þessum tíma skráði hann sig einnig í Háskólanám í fyrsta sinn og var það Þýskan sem varð fyrir valinu. Á þessum sama tíma var internetið ný bóla og féll hann algjörlega fyrir því og fór fyrsta námsárið að mestu fram á IRC spjallrásinni, en hann bauð yngri bróður sínum reglulega með upp í Háskólann til að vafra netið. Hann gekk undir nafninu Rfowler á IRC og átti þar margar vinkonur, en þó aðalega eina frá Keflavík. Hann fór á þessum tíma á nokkur blind stefnumót, en ekkert af því bar árangur.  Leitin hélt því áfram.

En eitt kvöldið bar þessi leit árangur, en það var 10. maí árið 1997 þegar Bjarni fór á Þjóðleikhúskjallarann ásamt vinum. Þar hittir hann Kristjönu sína og gerðust hlutirnir hratt næstu vikur og mánuði. Bjarni var lítið heima næstu vikur og gisti mikið hjá Kristjönu, en í byrjun júní þá byrja þau formlega að búa í Nökkvavogi, en þar voru einnig tvær systur Kristjönu að leigja saman. Þetta sama ár eða 10. ágúst eru Bjarni og Kristjana trúlofuð og giftu sig sex árum síðar, eða 2003. Bjarni greip því fyrsta tækifærið til að flytja að heiman sem bauðst, en hann hefði vel getað búið án kostnaðar í Skipasundi og sparað sér mikla fjármuni.

Bjarni vann á þessum árum hjá Póstinum, en árið 1999 flytja þau í eitt ár til Akureyrar þar sem Kristjána fékk góða vinnu hjá Hagkaup og Bjarni hjá Akó-plastos. Þetta var stormasamt á köflum og var Bjarni oft í Reykjavík vegna vinnu og komst ekki alveg í takt við lífið á Akureyri. Hann lagði því til við Kristjönu að þau myndu flytja til baka, og árið 2000 eru þau aftur flutt til Reykjavíkur. Bjarni vann næstu árin hjá 10-11 og Hagkaup í fjölbreyttum störfum og reddaði hann enn einu sinni bróður sínum vinnu og nú hjá 10-11. Árið 2005 hóf Bjarni störf hjá Raftækjalager Heimilistækja en þar vann hann við góðan orðstír til síðasta dags. Í ár ætti hann því 20 ára afmæli hjá fyrirtækinu. Sama ár keyptu Bjarni og Kristjana íbúð sína í Furugrund, en þar bauð Bjarni bróður sínum (Magnúsi) að koma og leigja herbergi í kjallara. Við þetta tækifæri tókst litla bróður loksins að flytja að heiman og hefja nýtt líf. Bjarni var alltaf fyrsti maður til að mæta þegar yngri bróðirinn flutti reglulega á leigumarkaðnum þessi fyrstu ár, og mætti iðulega með bíl frá Heimilistækjum. Svona var Bjarni, gerði allt fyrir alla og vildi öllum vel, og talaði aldrei illa um aðra. Ef hann var ósammálla um eitthvað, þá þagði hann frekar.

En Bjarni naut 26 ára með Kristjönu og voru þau dugleg að ferðast innanlands og erlendis. Þau fóru oftar en ekki í langar útilegur hér heima í tjaldi eða gistu í Ólafsfirði. Erlendis var líka víða farið um Evrópu og bjuggu þau til góðar minningar á sínum ferðalögum.

Þetta eru aðeins nokkrir punktar um hann Bjarna okkar, en minning hans lifir.

 

Stúdent úr MS 1995

 

Á Austurbrún á göngu, líklega í kringum 1988.
Ferming í Áskirkju 1989
Á Patreksfirði 1986

 

Skipasund 42, líklega árið 1985-6.