Það hefur verið til siðs að messugestir á Sjómannadeginum í Ólafsfirði mæti á Hafnarvogina sem er upphafstaður skrúðgöngunnar að Ólafsfjarðarkirkju þar sem Sjómannadagsmessan fer fram ár hvert. Áður en lagt er af stað til kirkju er allur hópurinn vigtaður á voginni og niðurstaðan skráð og skjalfest á milli ára. Það er gaman að segja frá því að nýtt met var skráð í morgun þegar messugestir vógu tæplega 4,5 tonn! En það er sagt vera nýtt sjómannadagsmet. Í fyrra var fjöldinn tæplega tonni léttari, en líklega hefur hópurinn verið heldur minni í það skiptið.
Þetta er skemmtileg tilbreyting og setur svip á daginn, en aðkomufólk rekur líklega upp stór augu í þessari athöfn.
Ljósmyndir með frétt tók Atli Rúnar Halldórsson eru þær birtar með góðfúsu leyfi hans.