Menningarminjadagarnir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu. Markmið þessara daga er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Þema ársins 2017 er „Minjar og náttúra“.
Fornleifar í Fljótum
Flutt verða þrjú stutt erindi sem endurspegla áhrif náttúru á staðsetningu minja og mótun menningarlandslags og varðveislu þess. Erindin verða haldin laugardaginn 14. október á Gimbur gistiheimili í Fljótum. Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, mun fjalla um menningarminjar og loftlagsbreytingar, Guðný Zoëga, fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga, gerir grein fyrir fornleifarannsóknum sumarsins í Fljótum og Hjalti Pálsson, ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar, veltir fyrir sér landnámi í Fljótum. Í framhaldinu verður heimsóttur einn af þeim fjölmörgu minjastöðum sem nýlega hefur fundist eða nýjar upplýsingar hafa fengist um.
Dagskrá hefst kl. 13:00 og að erindum loknum verður farið á einkabílum á minjastað í nágrenninu. Áætlað er að dagskrá ljúki eigi síðar en kl 16:00.
Leiðsögn um rústir Evangerverksmiðju
Evangerverksmiðjan var reist 1911 og var fyrsta stóra síldarverksmiðja landsins. Segja má að hún hafi markað innreið nútímans á Siglufirði. Snjóflóð féll á Evangerverksmiðjuna árið 1919 og hefur hún verið rústir einar síðan þá. Örlygur Kristfinnson leiðir göngu um minjasvæðið laugardaginn 14. október kl. 13:00 og verður komið saman á bílastæði við Siglufjarðarflugvöll. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.