Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 44. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki föstudaginn 26. maí 2023 að viðstöddu fjölmenni.

Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 3100 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Hún fjallaði m.a. um vaxandi áhuga á námi í iðngreinum sem hefur leitt til þess að rúmur helmingur sækir nú um nám í iðn- og starfsnámi samanborið við 14% haustið 2007. Þessi þróun er m.a. afurð af átaki menntamálayfirvalda, iðn- verkmenntaskóla landsins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga á Íslandi. Samhliða var aðgengi að háskólanámi aukið og markvisst er unnið að uppbyggingu á aðstöðu fyrir verknám.

FNV hefur tekið virkan þátt í þessari þróun sem endurspeglast m.a. í því að haustið 2022 stundaði 391 nemandi af 703 iðn- og starfsnám við skólann. Til að mæta þessari þróun stendur til að byggja 1.200 fm. viðbót við verknámshús skólans en ráðgert er að framkvæmdir hefjist vorið 2024.

Að lokum kvaddi hún þrjá starfsmenn sem starfað hafa við skólann um langt árabil. Þetta eru þau Atli Már Óskarsson, Helga Ottósdóttir og Steinunn Helga Sigurðardóttir. Öll láta þau af störfum vegna aldurs.

Kristján Bjarni Halldórsson, flutti vetrarannál skólans þar sem stiklað var á stóru í starfsemi hans. Á haustönn voru skráðir 703 nemendur og á vorönn voru þeir 669. Nemendur stunduðu námið í dagskóla, helgarnámi eða fjarnámi. Á haustönn 2022 störfuðu 66 starfsmenn í 55 stöðugildum við skólann og á vorönn 2023 64 starfsmenn í 55 stöðugildum.

Meðal viðburða má nefna að skólinn hafnaði 5. sæti í Stofnun ársins. Hann hlaut einnig viðurkenninguna Byggðagleraugun frá SSNV fyrir framsækið og metnaðarfullt skólastarf. Þá hlaut skólinn nýverið vottun á ISO:9001 staðlinum sem nær til alls skólastarfs. Mikil eftirspurn hefur verið eftir helgarnámi í iðngreinum og stefnt er að ferkara framboði í þeim efnum. Loks má geta þess að félagslífið hefur verið öflugt og drifið áfram af metnaðarfullu nemendaráði.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara. Alls brautskráðust 146 nemendur af eftirtöldum námsbrautum en alls voru gefin út 161 prófskírteini:

  • Félagsvísindabraut: 3
  • Fjölgreinabraut: 20
  • Hestabraut: 2
  • Náttúruvísindabraut: 5
  • Stúdentspróf starfsnáms: 7
  • Húsasmíði: 37
  • Húsgagnasmíði: 2
  • Íþróttaakademía: 1
  • Meistaraskóli: 17
  • Rafvirkjun/Rafvirkjun f. vélstjóra: 25
  • Sjúkraliðabraut/Sjúkraliðabrú: 14
  • Starfsbraut: 3
  • Trefjaplastsmíði: 11
  • Vélvirkjun: 7
  • Vélstjórn B: 7

Dagný Erla Gunnarsdóttir og Óskar Aron Stefánsson fluttu ávarp fyrir hönd brautskráðra nemenda og Hólmfriður Sveinsdóttir flutti ávarp nemenda sem brautskráðust fyrir 30 árum síðan. Þau Dagný Erla og Óskar Aron sáu svo um tónlistarflutning ásamt Inga Sigþóri Gunnarssyni og Írisi Helgu Aradóttur við undirleik Rögnvaldar Valbergssonar.

Að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið.

Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:

Ásdís Ósk Gísladóttir
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á sjúkraliðabraut.
Dagný Erla Gunnarsdóttir
  • Viðurkenning og þakkir fyrir framúrskarandi störf á vettvangi félagsmála nemenda, forystu fyrir Nemendafélag FNV og alla framgöngu á vettvangi skólastarfs.
  • Viðurkenning frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í spænsku á stúdentsprófi.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi fjölgreinabrautar.
  • Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðan árangur á sviði lista og félagsmála.
Heiðar Þór Rúnarsson
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum húsasmíði.
Ingi Magnús Gíslason
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum rafvirkjunar.
Íris Helga Aradóttir
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúruvísindabrautar.
  • Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi
Jón Pálmason
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur i sérgreinum vélstjórnar B.
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum vélvirkjunar.
Unnur Ásta Hilmarsdóttir
  • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum sjúkraliðanáms.

Þá fengu brautskráðir nemendur af sjúkraliðabraut/sjúkraliðabrú afhenta viðurkenningu frá Svæðisdeild sjúkraliða á Norðurlandi vestra.

 

Texti og mynd: fnv.is