Í gær, laugardaginn 28. maí undirrituðu oddvitar A-lista Jafnaðarfólks og óháðra og D-lista Sjálfstæðisflokksins undir meirihlutasamning fyrir kjörtímabilið 2022-2026 í Fjallabyggð.
Viðræður hafa gengið vel enda verið hreinskiptar og opnar, og liggur nú fyrir metnaðarfullur málefnasamningur um samstarf framboðanna. Í samningnum á milli framboðanna, sem verður
gerður opinber að loknum fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar á fimmtudaginn komandi, er lögð áhersla á samgöngumál, atvinnumál, búsetumál, umhverfis- og innviðamál og það að efla enn
frekar þjónustu við íbúa Fjallabyggðar.

Sveitarfélagið Fjallabyggð hefur haft traustan rekstur og leggja framboðin ríka áherslu á að svo verði áfram. Forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar verður S. Guðrún Hauksdóttir (D) og formaður bæjarráðs verður Guðjón M. Ólafsson (A).

Nýr bæjarstjóri í Fjallabyggð verður ráðinn með auglýsingu í gegnum ráðningarstofu.

Nánari upplýsingar veita:
S. Guðrún Hauksdóttir s. 869 4441
Guðjón Marinó Ólafsson s. 861 5949

Texti: Aðsend fréttatilkynning.