Mun fleiri húsbílum má nú koma fyrir á tjaldsvæðinu í miðbæ Siglufjarðar þar sem hús Egilssíldar var áður, eða Gránugata 27-29. Þetta er kærkomið pláss enda voru ekki sérstök stæði fyrir húsbíla á þessu svæði nema helst á grasblettinum sjálfum. Tvö tjaldsvæði eru á Siglufirði, annað þeirra er innar í bænum. Tjaldsvæði í Ólafsfirði er svo við sundlaugina.

Hús Egilssíldar við Gránugötu 27-29 á Siglufirði var rifið árið 2017, en húsið hýsti í mörg ár fyrirtækið Egilssíld. Húsið var byggt árið 1936 og var rúmlega 965 fm á stærð.

Fyrirtækið Egilssíld er fiskvinnslufyrirtæki sem framleiðir aðallega reyktar afurðir úr laxi og síld.  Egils sjávarafurðir rekur rætur sínar aftur til ársins 1921 er Egill Stefánsson hóf að reykja síld á Siglufirði. Þá var síldarævintýrið í algleymingi, einhver mesti uppgangstími í atvinnusögu þjóðarinnar. Egill rak fyrirtækið til dauðadags 1978, en þá tók sonur hans Jóhannes við. Jóhannes féll frá árið 2011 og nýir eigendur sem reka fyrirtækið í dag tóku þá við rekstrinum.