Þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum hefur verið opnuð á Island.is. Markmiðið er að bæta aðgengi fólks, hvort sem það eru útlendingar eða Íslendingar, að þeim aðilum sem hafa með mat á menntun að gera. Um er að ræða stórt skref til einföldunar fyrir þá sem þurfa á mati að halda því loks geta þeir fengið á einum stað allar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar á menntun eða hæfi. Tilgangurinn með mati getur verið margþættur, s.s. vegna innskráningar í skóla, vegna viðurkenningar á námi vegna launaröðunar, vegna veitingu starfsréttinda sem skilyrði fyrir því að starfa í tiltekinni fagstétt o.s.frv.
Vinna við þjónustugáttina hefur verið leidd af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Stafrænt Ísland, ENIC/NARIC og fleiri lykilaðila sem koma að mati á námi. Það hefur lengi verið ákall um að bæta þjónustuna og einfalda verkferla.
Mikilvægt er að fólk með sérþekkingu komi að matinu enda geta einstaklingar öðlast réttindi með slíku ferli til að sinna veigamiklum störfum í samfélaginu, hvort sem það snýr að byggingu húsa eða aðgerðum á sjúkrahúsum. Með þjónustugáttinni er fyrst og fremst verið að tengja þessa miðlægu síðu við alla þá sem koma að mati og viðurkenningu á námi hér á landi.
Komast má inn á þjónustugáttina hér.