Brynhildur Þorgeirsdóttir myndhöggvari bauð gestum og gangandi á Dalvík upp á leiðsögn á sunnudaginn um útilistaverkið Landslag, skúlptúrgarð sem staðsettur er við fiskvinnsluhús Samherja við höfnina á Dalvík.

Þar fræddi listamaðurinn gesti um hvernig manngert landslag verður til í samvinnu við manneskjur og umhverfi.

Blíðskapar veður var á Dalvík um helgina og þáðu fjölmargir boðið og fræddust um útilistaverkið.

Verkið nær yfir þrjú beð við fiskvinnsluhúsið og inniheldur þrjú fjöll, sjö steina, klett og sex form sem þakin eru melgresi, sem óx skammt frá húsinu. Saman mynda þessi listaverk eina heild.

„Það er einstakt að einkafyrirtæki ráðist í svo stórt verkefni eins og Landslag. Oftast er látið nægja að skreyta húsið með málverki á skrifstofu viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar, en þarna á Samherji mikið hrós skilið,“ sagði Brynhildur við gestina.

Texti og myndir: Aðsent.