Man Utd 3 – 2 Man City
0-1 Joleon Lescott (’38)
0-2 Edin Dzeko (’45)
1-2 Chris Smalling (’52)
2-2 Nani (’58)
3-2 Nani (’90+3)
Manchester United tryggði sér í dag Samfélagsskjöldinn með 3-2 sigri gegn nágrönnum sínum í Manchester City eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik.
Englandsmeistararnir byrjuðu leikinn betur og voru með undirtökin en hins vegar var það Manchester City sem skoraði fyrsta markið en þar var á ferðinni Joleon Lescott, sem skallaði knöttinn í netið eftir góða fyrirgjöf frá David Silva.
Edin Dzeko bætti síðan við marki rétt fyrir leikhlé með skoti utan teigs sem hinn nýji markvörður David De Gea átti klárlega að verja.
Man.Utd gerði þrjár breytingar í hálfleik . Sú breyting sem skilaði mestu var sú að Tom Cleverley kom inn á miðjuna og átti góðan leik.
Chris Smalling minnkaði muninn eftir góða fyrirgjöf frá Ashley Young á 52. mínútu og skömmu síðar jafnaði Nani metin eftir stórglæsilega sókn Man.Utd.
Það stefndi allt í vítaspyrnukeppni en Nani var ekki á sama máli. Hann hirti knöttinn af Vincent Kompany og komst einn í gegn og lék á Joe Hart áður en hann renndi boltanum í netið. Slæm mistök hjá Kompany og United komnir yfir á 93. mínútu og ekki gafst City tími til að jafna metin.