Áberandi er að mati lögreglu hve fáir grunn- og framhaldsskólanemar nota endurskinsmerki. Þetta er sérstaklega bagalegt snemma á morgnana þegar myrkur grúfir yfir og margir eru á ferð við skóla á höfuðborgarsvæðinu, bæði gangandi og akandi. Lögregla hvetur af þessum sökum gangandi vegfarendur til að gera þar bragarbót á. Þá vísar hún til ábyrgðar foreldra og forráðamanna að þessu leyti. Ökumenn eru jafnframt minntir á að gæta vel að gangandi vegfarendum og þá sérstaklega í nágrenni við skóla. Þessu til viðbótar bendir lögregla á þá skyldu hjólreiðamanna að búa reiðhjól sín ljóskeri í myrkri eða skertu skyggni sem lýsir hvítu eða gulu ljósi að framan og öðru að aftan sem lýsir rauðu ljósi. Á þessu hefur verið misbrestur og er ekki einkamál reiðhjólamanna.

Texti frá Lögregluvef.