Norska strandgæslan hefur hætt leitinni að mönnunum þremur sem leitað var eftir að íslenskur togari sökk við strendur Noregs í dag.
Strandgæslan leitaði þeirra í kvöld með tveimur björgunarþyrlum og einni herflugvél. Þeim hefur nú verið snúið til lands.
Að sögn Benvik Ören, hjá norsku strandgæslunni, var leitinni hætt klukkan níu í kvöld, vegna erfiðra aðstæðna á slysstað. Aftakaveður er á svæðinu og nemur ölduhæðin allt að 15 metrum.
Norskir fjölmiðlar greindu frá því í kvöld að fundist hefði brak, sem talið væri úr bátnum.
Báturinn heitir Hallgrímur SI-77, nærri þrjúhundruð tonna togari frá Siglufirði.Hallgrímur var þrjátíu og fimm metra langur, smíðaður 1974 á Englandi og var gerður út frá Siglufirði frá 2010. Hann hafði verið seldur í brotajárn og var af þeim sökum á leið til Noregs með fjóra um borð.
Maðurinn sem fannst er nú kominn til Álasunds og er sagður vel á sig kominn, miðað við aðstæður. Hann var í flotbúningi þegar hann fannst. Norskir fjölmiðlar segja að björgunarlið hafi fundið mannlausan björgunarbát.