20 barnaleikrit hafa verið sýnd hjá Leikfélagi Sauðárkróks síðustu tvo áratugina. Að þessu sinni sýnir félagið leikritið “Allt í plati” eftir Þröst Guðbjartsson.

Þetta er ellefta árið í röð sem Leikfélag Sauðárkróks setur upp barnaleikrit að hausti og jafnframt er þetta tuttugasta barnasýning félagsins frá því árið 1984. “Allt í plati” var frumsýnt í félagsheimilinu Bifröst 26. október og eru átta sýningar áformaðar. Leikstjóri er Íris Baldvinsdóttir. 12 leikarar taka þátt í sýningunni og eru sumir að stíga á svið í fyrsta sinn.

Í leikritinu galdrar Lína Langsokkur til sín persónur úr þekktum barnaleikritum. Meðal annars; Mikka ref, Lilla klifurmús, Karíus og Baktus, Kasper, Jesper og Jónatan og Soffíu frænku.

Þrjú af fjórum verkum “inní verkinu” hafa áður verið sýnd af Leikfélagi Sauðárkróks; Lína Langsokkur (1986), Kardemommubærinn (1987) og Dýrin í Hálsaskógi (1994). Styttri leikgerð af “Allt í plati” var sýnd á Sauðárkróki þann 17. júní árið 2003.

Heimild: Rúv.