Fyrr á þessu ári komu út fyrstu vitarnir úr seríu 10 vita sem gefnir verða út á frímerkjum næstu ár. Sá fyrsti var Langanesviti. Frímerkið er hannað af Erni Smára Gíslasyni, með ljósmynd Friðriks Arnar og gildir fyrir bréf allt að 50 grömmum. Einnig var gefið út póstkort í lögun eins og Langanesvitinn.
Árið 1910 var fyrst reistur viti á Fonti yst á Langanesi. Það var stólpaviti sömu gerðar og vitarnir sem reistir voru á Reykjanesi og Öndverðarnesi árið áður. Árið 1914 var reist í hans stað 3 m há járngrind með ljóshúsi og í það settur ljósbúnaður stólpavitans. Nýr viti var reistur á Langanesi árið 1950. Ljóshús vitans er af sænskri gerð, 3,5 m hátt, með steinsteyptri undirstöðu og eirþaki. Langanesviti er steinsteyptur 6 m hár kónískur turn á lágum sökkli.