Langanesbyggð hefur samþykkt að senda erindi til ráðherra samgöngumála, þingmönnum Norðausturkjördæmis og Vegagerð ríkisins um ástand vegarins milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.
„Líkt og þér er kunnugt sameinuðust sveitarfélögin Þórshafnarhreppur og
Skeggjastaðahreppur í Langanesbyggð í apríl árið 2006. Í sveitarfélaginu eru tveir
byggðakjarnar, Þórshöfn og Bakkafjörður, sem tengdir eru með vegi um Bakkaflóa og
Langanesströnd og yfir svokallaða Brekknaheiði. Eins og gefur að skilja eru samgöngur um
þennan veg æði miklar, enda er sveitarfélagið eitt atvinnusvæði auk þess sem íbúar
88
sveitarfélagsins sækja ýmsa þjónustu sem fyrir hendi er í þéttbýlinu, s.s. skóla og verslun. Þannig er börnum á grunnskólaaldri á Bakkafirði ekið daglega til Þórshafnar, auk þess sem börn í sveitum nærri Bakkafirði er ekið til skóla á Bakkafirði.
Vegurinn milli Þórshafnar og Bakkafjarðar er um 44 kílómetra langur, þar af hefur verið lagt bundið slitlag á samtals tæpa 17 kílómetra en rúmir 27 kílómetrar eru malarvegur. Við sameinginu sveitarfélaganna var stefnt að því að bæta samgöngur á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, m.a. að leggja bundið slitlag á allan veginn milli þorpanna. Af því hefur hinsvegar ekki orðið.
Malarkaflarnir á þessari leið hafa um árabil verið afar slæmir og í raun alræmdir meðal íbúa sveitarfélagsins. Sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur um árabil krafist þess að verkið verði klárað en ekki hafa fengist varanlegar úrbætur, þ.e. bundið slitlag á allan veginn. Hefur malarköflunum lítið sem ekkert verið haldið við, auk þess þeir eru á köflum mjóir og í þeim mikil lausamöl. Árlega verða slys eða óhöpp á þessum köflum.
Síðustu mánuði hefur ástand vegarins verið með þeim hætti að um þverbak keyrir. Það er mat sveitarstjórnar við svo búið verður vart unað lengur. Skólastarf er nú hafið í grunnskólum sveitarfélagsins og dagleg er börnum ekið um veginn. Þegar ofan á slæmt ástand vegarins bætist jafnvel ófærð og slæm veður fylgir því mikil ábyrgð að senda börn um þennan veg á hverjum degi.
Í ljósi mikilla samgöngubóta í landsfjórðungnum síðustu misseri, m.a. nýs vegar um Hólaheiði og um Vesturárdal í Vopnafirði, er umrædd leið eini vegakaflinn á mögulegum „ferðamannahring“ á Norðausturlandi sem ekki hefur verið lagaður að nútíma kröfum um ástand akvega.
Þá er það í besta falli sérkennilegt að á meðan umræddur vegur, sem tengir saman byggðarkjarna á sama atvinnusvæði, er í eins slæmu ástandi og raun ber vitni, er á sama tíma varið háum fjárhæðum í að byggja upp ferðamannavegi víða um land.
Þess vegna vill sveitarstjórn Langanesbyggðar fara þess á leit við þig að þú beitir þér fyrir því að fjármagni verði varið í klára veginn í eitt skipti fyrir öll og þannig staðið við það sem rætt var um fyrir 5 árum síðan.“