Meistaraflokkur Dalvíkur/Reynis mætti Einherja frá Vopnafirði í Mjólkurbikarkeppni kvenna í dag á Dalvíkurvelli.  Mikil eftirvænting var fyrir þennan fyrsta leik liðsins. Knattspyrnudeild Dalvíkur hóf að safna liði í febrúar og mars á þessu ári og voru gerð 24 félagskipti á því tímabili í meistaraflokki kvenna. Fjölmargar knattspyrnukonur frá liðum á Norðurlandi og víðar komu til að styrkja liðið og hópinn. Fyrir  voru ungar og efnilegar stelpur frá Dalvík.

Allt var í járnum í fyrri hálfleik og ekkert mark skorað í leiknum. Síðari hálfleikur var líflegri og náðu gestirnir fyrsta markinu á 61. mínútu, og var staðan 0-1. Á 73. mínútu skoraði Einherji aftur og komst í góða stöðu, 0-2.

Þjálfari D/R gerði þrjár skiptingar eftir síðari markið í þeirri von að koma inn marki.

Það voru gestirnir sem áttu síðasta markið sem kom í uppbótar tíma og voru lokatölur 0-3 í þessum bikarslag á Dalvíkurvelli.  Dalvík/Reynir er því úr leik í bikarnum í ár.

Liðin mun aftur mætast í 2. deild kvenna í sumar, en fyrsti leikur D/R  verður gegn ÍH í Skessunni 11. maí.