2. umferð Íslandsmótsins í 2. deild kvenna hófst á föstudaginn með nokkrum leikjum og lýkur á sunnudag. Blakfélag Fjallabyggðar er með lið í deildinni og léku þær fjóra leiki í dag.

HK-Ý – BF

Fyrsti leikurinn var snemma í morgun eða á slaginu 8:00 við HK-Ý. HK stelpurnar mættu kröftugar til leiks og átti BF ekkert svar í fyrstu hrinu sem HK vann 25-8.

HK byrjaði aðra hrinu einnig örugglega og komust í 8-2, en þá vöknuðu BF stelpurnar til lífsins og komust þær yfir 9-10. Leikurinn var jafnt og spennandi eftir þetta en BF komst yfir 20-22 og tók HK leikhlé.  BF vann hrinuna 22-25.

Oddahrinan var jöfn en BF var ögn sterkari og unnu þær 13-15 og leikinn 1-2.

BF-Sindri

BF mætti næst Sindra frá Hornafirði, en það lið hefur sex erlenda leikmenn í sínu liði.  Sindrastelpurnar voru mun sterkari í fyrstu hrinu og komust í 0-6 og 7-12. BF tók hlé í stöðunni 14-20 en Sindri vann hrinuna 18-25.

Önnur hrina var mun jafnari framan af og héldu BF stelpur leiknum í jafnvægi framan af. Jafnt var í 10-10 og 17-17 en Sindri vann að lokum 19-25 og leikinn 0-2.

HK-G – BF

Þriðji leikurinn var síðdegis gegn HK-G. Liðin skiptust á að leiða í fyrstu hrinu og náðu góðu forskoti en náðu alltaf að koma til baka. HK vann fyrstu hrinuna 25-22.

BF stelpurnar voru mun ákveðnari í annari hrinu og náðu forskoti þegar leið á hrinuna og var staðan 15-19 og tók þá HK leikhlé. BF stelpurnar gáfu ekkert eftir á lokasprettinum og unnu hrinuna örugglega 16-25 og var staðan 1-1.

BF fóru vel af stað í oddahrinunni og komust í 0-7. HK minnkaði jafnt og þétt muninn en BF var nálægt sigri í stöðunni 10-14 en að lokum unnu þær 12-15 og leikinn 1-2.

HK-H – BF

Lokaleikur BF í dag var gegn HK-H kl. 18:45, eftir langan dag. Leikurinn var jafn en HK stelpurnar voru sterkari í lok hrinunnar og unnu 25-22 eftir að jafnt hafi verið í stöðunni 22-22.

BF náðu góðu forskoti í annarri hrinu og komust í 7-12 og 14-18. Mikil spenna var í lokin og var jafnt á tölunum 19-19 og 20-20. BF komst í 20-22 og 23-24 og vantaði aðeins eitt stig. BF komst í 24-25 og aftur vantaði eitt stig til sigurs og fór leikurinn í upphækkun.  HK stelpurnar tóku síðustu þrjú stigin og unnu hrinuna 27-25 eftir mikla baráttu og unnu leikinn 2-0.