Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék alls fimm leiki nú um helgina í 2. umferð Íslandsmótsins í 3. deild kvenna. Í dag var lokaleikur liðsins og var það gegn Leikni Fáskrúðsfirði sem er eitt af toppliðunum í deildinni.
Leikurinn var nokkuð jafn heilt yfir en Leiknir var þó ívið sterkara liðið. Leiknir byrjaði fyrstu hrinu sterkt og komst í 6-1 en BF kom til baka og jafnaði 9-9 og 11-11. Leiknir 20-13 og 22-15 og hafði undirtökin. BF kom til baka minnkaði muninn í 22-19. Leiknir var sterkari í lokin og kláraði hrinuna 25-21.
Leiknir hafði aftur undirtökin í annarri hrinu og komst í 8-3 og 11-4. BF minnkaði muninn í 14-11 og jafnaði 15-15. BF var í ágætri stöðu 17-19 en þá seig Leiknir framúr og vann hrinuna 25-22 og leikinn 2-0.
BF vann tvo leiki um helgina og tapaði þremur og er í neðri hluta deildarinnar.