Kvennalið Blakfélag Fjallabyggðar var í höfuðborginni um helgina til að keppa á Íslandsmóti kvenna í 2. deild. Síðustu leikir liðsins í þessari umferð fóru fram í dag.

Dímon-Hekla – BF

Í morgun keppti BF við Dímon-Heklu kl. 9:30. BF stelpurnar byrjuðu fyrstu hrinu vel og náðu ágætis forskoti með góðum leik.  Þær komust í 2-8 og 3-14 og tóku Dímon konur leikhlé til að endurskipuleggja leik sinn í þessu áhlaupi BF. Dímon liðið skoraði þá 9 stig á móti 1 og komust aftur inn í leikinn í stöðunni 12-15. Hér tóku BF stelpurnar hlé til að stöðva þennan góða kafla Dímons. BF komst í 14-19 en Dímon minnkaði muninn í 18-19. BF var svo sterkari á lokamínútum hrinunnar og unnu 19-25.

Dímon-Hekla byrjaði seinni hrinuna vel og komust í 4-0 og 10-5 en BF jafnaði 11-11. Aftur kom góður kafli hjá Dímon sem komst í 16-11 og tók nú BF hlé. Dímon komst nú í 19-14 áður en BF minnkaði muninn í 19-18 og var töluverð spenna kominn í leikinn á lokamínútunum í hrinunni. Dímon komst í 23-22 og unnu svo 25-22 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Oddahrinan var jöfn og tvísýn. BF komst í 5-9 með góðum leik en Dímon jafnaði 10-10. Góður kafli hjá Dímon gerði út um leikinn og unnu þær hrinuna 15-11 og leikinn 2-1.

Þróttur Rvk-C – BF

Lokaleikur BF var gegn Þrótti Reykjavík í hádeginu í dag í Fylkishöllinni. Fyrsta hrina var jöfn þar sem liðið skiptust á að leiða leikinn án þess að ná teljandi forskoti. BF komst í 12-15 og tók þá Þróttur hlé. Góður kafli Þróttar skilaði þeim í forystu 18-15 og 22-18. Þróttur tók gott leikhlé þegar BF þjarmaði að þeim í lokin í stöðunni 22-21. Lokastigin voru Þróttar og unnu þær sigur 25-22.

Þróttur var sterkari í fyrri hluta síðari hrinunnar og náðu góðu forskoti í stöðunni 12-3 og 13-7 en þá tók BF við sér. BF snéri leiknum sér í vil og komust yfir 14-16 og tók nú Þróttur hlé. Jafnt var á tölum og spenna síðustu mínúturnar, en í stöðunni 22-21 tók BF hlé. Þróttur var aftur sterkari á lokamínútunum og unnu 25-22 og unnu leikinn 2-0.