Í gær luku skíðakrakkar í Ólafsfirði sólarhrings maraþoni, en þetta gerðu þeir til að safna fyrir æfingaferð til Noregs. Þau hjóluðu, hlupu og renndu sér á hjólaskíðum, alls 715,8 kílómetra á 24 klukkustundum. Þau söfnuðu samtals 263 þúsund krónum. Krakkarnir vilja koma á framfæri þakklæti til allra sem studdu þau í verkefninu og síðast en alls ekki síst bæjarbúum sem tóku frábærlega á móti þeim í áheitasöfnuninni.
Það voru þau Hugrún Pála Birnisdóttir, Jónína Kristjánsdóttir og Marinó Jóhann Sigursteinsson sem stóðu að maraþoninu. Þau eru að fara í æfingaferð til Noregs í lok desember og var þetta liður í að safna fjármagni til ferðarinnar. Þau nutu aðstoðar nokkurra félaga úr Skíðafélagi Ólafsfjarðar við framkvæmdina. Gengið var í hús miðvikudag og fimmtudag til að safna áheitum.
Tíminn greinir frá.