Leikskólinn Leikhólar í Ólafsfirði er kominn að þolmörkum vegna fjölda barna á hverri deild. Þar er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að leysa vandann. Kallað hefur verið eftir hugmyndum frá starfsfólki leikskólans.
Þá hefur Fjallabyggð skipað vinnuhóp sem hefur það að markmiði að skoða kosti og galla breytinga á starfsaðstæðum í Leikskóla Fjallabyggðar. Horft verði til þess að mögulegar breytingar taki gildi frá og með næsta skólaári.
Mörg sveitarfélög eru að fara með breytingu á starfsaðstæðum og skipulagi í leikskólum svo sem með gjaldfrjálsum 6 tíma leikskóla og skráningardögum.
Húsnæði Leikhóla í Ólafsfirði var byggt árið 1982 sem tveggja deilda leikskóli en var stækkað um eina deild árið 2008. Þá batnaði starfsmannaaðstaða til muna við þær breytingar.