Hinn 26. júní nk. lendir Airbus 320 þota á Akureyrarflugvelli með allt að 180 ferðamenn frá Slóveníu á vegum Ferðaskrifstofunnar Nonna. Fólkið mun leggja leið sína um Norðurland og önnur landsvæði næstu 7 dagana áður en það snýr aftur til síns heima 3. júlí. Samstarfsaðilar í Slóveníu eru Adria Airways og ferðaskrifstofur sem hafa selt ferðir til Íslands í mörg ár. Það hefur kostað mikla fyrirhöfn að telja hina erlendu samstrafsaðila á að fljúga til Akureyrar því Reykjavík og Keflavíkurflugvöllur eru flestum efst í huga.

Ferðaskrifstofan Nonni var stofnuð árið 1989 með það að markmiði að taka á móti erlendum ferðamönnum á Akureyri og greiða leið þeirra um Norðurland sérstaklega. Þetta hefur tekist bærilega og er skrifstofan sem betur fer ekki lengur ein, heldur eru fjölmargir aðilar hér á svæðinu sem allir leggjast á eitt. Í fyrra var ferðaskrifstofan einnig með beint flug frá Slóveníu og eru þessi flug liður í þeirri viðleitni að fá sem flesta ferðamenn beint til Akureyrar. Fyrir ári síðan voru 20 ár liðin síðan Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða sjálfstæði Slóveníu og gróðursettu þá hver og einn hinna erlendu gesta eitt tré í sérstakanlundí Kjarnaskógi við Akureyri. Nú er ætlunin að endurtaka þetta og stækka lundinn.

Viðunandi nýting á flugvélunum byggist á því að Íslendingar nýti flugið einnig. Ferðaskrifstofan hefur því sett saman áhugaverð ferðatilboð fyrir Íslendinga sem býðst að fljúga beint til og frá Slóveníu sömu daga. Hefur eftirspurn verið mjög góð og nær hún til allra landshluta. Einn af kostum Akureyrarflugvallar er hversu stuttan tíma það tekur að innrita sig og fara í gegnum vopnaleit. Lítil fríhöfn er á vellinum og allur aðbúnaður með ágætum.