Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Þrótti Vogum á Ólafsfjarðarvelli í 15. umferð Íslandsmótsins. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

Upphitun:

Ungmennafélagið var í 4. sæti fyrir þennan leik og verið með í toppbaráttunni, enda aðeins þremur stigum frá toppnum. KF gat með sigri og hagstæðum úrslitum komist úr fallsæti í fyrsta sinn í deildinni í sumar. Það var því mikið undir fyrir bæði liðin og mikilvægur leikur. Þróttur var með nýjan markmann sem kom beint inn í byrjunarliðið, en hann er 37 ára reynslubolti af Suðurnesjum. Liðin höfðu mæst 7 sinnum frá árinu 2017, og hafði Þróttur unnið 4 leiki og KF 1, tveir höfðu farið jafntefli. Áhugaverð staðreynd að Þróttur hefur ekki enn unnið KF á Ólafsfjarðarvelli. Þróttur vann fyrri leik liðanna í voru 1-0 í Vogum. Þróttur er með tvo leikmenn á topp 5 markahæstu leikmenn deildarinnar, og annar þeirra var ekki með í þessum leik, en það er Kári Sigfússon sem hafði skoraði 10 mörk í 14 leikjum. Fyrirliði liðsins var hins vegar með en hann hafði gert 8 mörk 13 leikjum.

KF gerði nokkrar breytingar og í fyrsta sinn í langan tíma þá var Ljubomir Delic á bekknum, en hann er öllu jafnan í byrjunarliði.  Þá var Vitor Thomas kominn í byrjunarliðið en hann hefur verið á bekknum undanfarna leiki en han skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í nokkur ár í síðasta leik. Sterkir leikmenn voru á bekknum hjá KF, meðal annars þjálfari liðsins sem varamarkmaður. Daninn Daniel Kristiansen var einnig klár á bekknum en hann er öflugur miðjumaður. Akil var einnig kominn á bekkinn eftir að hafa verið meiddur síðustu vikur.

Umfjöllun:

Það var mikið undir í þessum leik og ekkert gefið eftir. KF þurfti að gera breytingu um miðjan fyrri hálfleik þegar Jón Frímann þurfti skiptingu en inná kom Aron Elí Kristjánsson. KF komst svo yfir á 40. mínútu þegar Sito skoraði sitt þriðja mark fyrir félagið. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir KF. Gestirnir hefðu náð sér í þrjú gul spjöld í fyrri hálfleik og þurftu að fara varlega í síðari hálfleik.

Bæði lið komu ákveðin til leiks í síðari hálfleik og náði KF að skora strax á 48. mínútu þegar Atli Snær Stefánsson skoraði og fékk einnig gult spjald frá dómaranum að launum. Staðan 2-0 og allur seinni hálfleikur eftir.

Þróttur var ekki lengi að svara og skoruðu strax í næstu sókn og minnkuðu muninn í 2-1, en það var fyrirliðinn þeirra Adam Árni sem skoraði sitt 9 mark í deildinni.

KF gerði eina breytingu á 61. mínútu þegar Þorsteinn Már kom inná fyrir Rúnar Egilsson. Fyrirliði Þróttar gerði sitt annað mark í leiknum á 64. mínútu og jafnaði leikinn í 2-2.

Bæði lið gerðu nokkrar skiptingar eftir jöfnunarmarkið en KF setti þrjá ferska leikmenn inná á 72. mínútu, en Akil, Kristian Dagbjartur Búi komu allir inná og áttu eftir að breyta gangi leiksins. Nokkrum mínútum eftir þessa skiptingu gerði Þróttur fjórar skiptingar, enda margir þar á gulu spjaldi.

Komið var fram í uppbótartíma þegar Þróttur missir leikmann af velli með rautt spjald, en enn voru nokkrar mínútur eftir af leiknum.

KF gekk á lagið og kom inn sigurmarki á 96. mínútu, en það var varamaðurinn Dagbjartur Búi Davíðsson sem reyndist hetjan.

Dómarinn flautaði og KF vann frábæran 3-2 sigur gegn sterku liði Þróttar.

Fyrirfram frekar óvæntur sigur miðað við gengi liðanna í sumar. Liðið er enn í fallsæti þrátt fyrir þennan sigur þar sem Sindri vann sinn leik en Völsungur tapaði sínum og er nú þéttur pakki frá 11. sæti til 9. sætis.

 

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.

 

 

 

 

 

 

Ólafsfjarðarvöllur
KF-Þróttur