KF mætti Magna í Lengjubikarnum í dag í Boganum á Akureyri. Liðin mættust fjórum sinnum á síðasta ári og vann Magni aðeins einn leik en KF hina þrjá. KF hefur því haft nokkuð gott tak á Magnaliðinu undanfarið en liðin þekkja vel styrkleika hvers annars.

Dómarinn hafði í nógu að snúast við að spjalda Magnamenn en þeir náðu sér í 8 gul spjöld og eitt rautt í lokin. KF menn voru töluvert prúðari en náðu sér þó í þrjú gul spjöld.

Bæði lið stilltu upp sterkum liðum en KF var þó með tvo unga stráka í byrjunarliði fædda árið 2005 og tvo fædda árið 2006 á bekknum.

KF tók forystuna í fyrri hálfleik þegar Sævar Þór Fylkisson skoraði á 32. mínútu. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik. Þjálfari KF gerði svo þrefalda skiptingu í hálfleik og sendi nýja leikmanninn Akil Rondel inná ásamt Marinó Snæ og Dagbjarti Búa sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir KF. Sævar Þór, Jón Frímann og Þorsteinn Már fóru útaf.

Helgi Már kom inná fyrir Ljuba Delic á 73. mínútu, en aðeins mínútu síðar kom seinna mark KF þegar Marinó Snær Birgisson skorað og kom KF í þægilega stöðu.

KF náði tveimur skiptingum rétt fyrir uppbótartímann þegar Einar Óskarsson og Hjörvar Már komu inná.

Komið var langt inn í uppbótartíma þegar Magni skoraði eitt sárabótarmark  en það er skráð á 94. mínútu. Það var samt fjör í uppbótartímanum og náði Magni sér í 4 gul spjöld og eitt rautt að auki.

KF hélt út og unnu leikinn 1-2.