Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Kári frá Akranesi mættust á Ólafsfjarðarvelli í 32 liða úrslitum í Fótbolti.net bikarnum, sem er ný bikarkeppni neðrideildarliða. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

Kári leikur í 3. deild karla og er um miðja deild þar, en liðið er svokallað B-lið ÍA, mikið af ungum og efnilegum leikmönnum sem spila og örfáir reynsluboltar með. Þeir komu ekki með stóran hóp í þetta verkefni, en aðeins fjórir varamenn voru til staðar hjá þeim.

KF átti frestaðan leik í síðustu umferð Íslandsmótsins og var því kærkomið að fá bikarleik á milli umferða.

Að vanda eru alltaf væntingar gerðar til liðsins og var búist við sigri KF gegn liði Kára sem eru deild neðar. En allt getur gerst í bikarleikjum.

Það var óvænt nafn á bekknum hjá KF í þessum leik en Daniel Kristiansen var kominn á bekkinn í fyrsta sinn í langan tíma. Þá var Grétar Áki einnig á bekknum en Fransisco Eduardo var fyrirliði liðsins í þessum leik.

Umfjöllun:

KF byrjaði leikinn ágætlega og skoruðu fyrsta mark leiksins á 11. mínútu en það var Jordan Damachoua sem gerði markið, hans fyrsta mark á þessu tímabili í deild og bikar. Áhorfendur vonuðust til að þessi góða byrjun myndi gefa tóninn og liðið fylgja eftir með fleiri mörkum.

Kári jafnaði leikinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og fóru liðin inn í búningsklefann í stöðunni 1-1.

Bæði lið gerðu eina skiptingu í hálfleik, en gestirnir komu ákveðnir til leiks og fengu vítaspyrnu á 55. mínútu. Marteinn Theodórsson skoraði örugglega úr henni og kom gestunum yfir 1-2, en hann gerði einnig fyrsta mark Kára í leiknum.

Aðeins fimm mínútum síðar komust gestirnir í 1-3 og voru heimamenn slegnir út af laginu með þessum mörkum. Þjálfari KF gerði þrefalda skiptingu á 68. mínútu og komu öflugir menn inná sem höfðu verið settir á bekkinn og áttu nú að bjarga leiknum.

Kári skoraði sitt fjórða mark í uppbótartíma og unnu leikinn örugglega 1-4. Sannarlega nokkuð óvænt úrslit og er KF úr leik í bikarkeppninni í ár.

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.