Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Knattspyrnufélag Vesturbæjar í 16. umferð Íslandsmótsins.  Veður var frábært og gervigrasið á Auto Park vellinum klárt fyrir leikinn. Þetta var algjör sex stiga leikur en KV eru neðstir og eru í mikilli hættu að falla úr deildinni eftir erfitt tímabil. KF gat hinsvegar komið sér úr fallsæti í fyrsta sinn í sumar með sigri þar sem Sindri tapaði sínum leik en Völsungur lék á sama tíma. KF átti því möguleika að komast í 9.-10. sæti eftir því hvernig leikurinn hjá Völsungi og Haukum færi, en þar var annar sex stiga leikur hjá liðum rétt fyrir ofan fallsvæðið. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

Upphitun:

Það voru stórar fréttir frá KF fyrir þennan leik en þjálfari liðsins Halldór Ingvar Guðmundsson var aðalmarkamaður liðsins, en Javon Sample var víst í fæðingarorlofi í þessum leik. Halldór hefur verið á bekknum í undanförnum leikjum og margir aðdáendur hans vonast til að hann myndi ná einhverjum leikjum á þessu tímabili. Það var því ljóst að þetta yrði hans 270 leikur í meistaraflokki fyrir KF og forvera liðsins.

KV vann fyrri leik liðanna í 6. umferðinni 0-1 á Ólafsfjarðarvelli og vildu strákarnir í KF ná sigri hér til að bæta það upp.  KF var með tvo sigra úr síðustu fimm leikjum á meðan KV var aðeins með eitt jafntefli en fjögur töp.

KV var með stórar fréttir einnig fyrir leikinn, en þjálfari liðsins, Hjörvar Ólafsson er hættur sem aðalþjálfari liðsins. Viktor Bjarki Arnarsson var þjálfari liðsins í þessum leik og gerði samning við út leiktíðina í tilkynningu sem barst rétt fyrir leikinn.

Ljubomir Delic var aftur kominn í byrjunarliðið hjá KF og Sito var einnig klár í fremstu línu. Grétar Áki var fyrirliði liðsins.

Umfjöllun:

KF voru ákveðnir í að selja sig dýrt og byrjuðu leikinn af krafti. Marinó Snær gerði tvö fyrstu mörk liðsins á 9. mínútu og 13. mínútu og var staðan skyndilega orðin 0-2 eftir frábæra byrjun KF. Voru þetta tvö fyrstu mörk Marinós í deildinni í sumar.

Liðið hélt áfram að fá færi í fyrri hálfleik og Sævar Þór Fylkisson skoraði þriðja markið eftir tæplega hálftíma leik, hans sjötta mark í deildinni. Sito setti svo fjórða markið skömmu fyrir leikhlé, hans fjórða mark í fimm leikjum með liðinu en hann hefur byrjað af krafti. Staðan þægileg í hálfleik fyrir KF, 0-4, en heimamenn í miklum vandræðum í vörninni.

KF gerði tvær skiptingar í hálfleik, en Sito og Vitor komu útaf fyrir Dagbjart Búa og Daniel Kristiansen.

Færin voru færri í síðari hálfleik hjá KF og rötuðu þau ekki á markið.  KV hélt boltanum aðeins meira innan liðsins en sköpuðu sér fá færi. Heimamenn náðu að loka betur vörninni, en það hefur eflaust verið áhersla hjá þeirra þjálfara í hálfleik. KV sótti nokkrar hornspyrnur í síðari hálfleik en Dóri markmaður KF var kóngurinn í teignum og tók allt sem kom þar fljúgandi.

Akil kom inná á 75. mínútu fyrir Ljubomir Delic.

KF kláraði leikinn og unnu dýrmætan sigur í fallbaráttunni, 0-4 og komust upp í 9. sæti þar sem Völsungur tapaði sínum leik. KF er núna með 18 stig, tveimur meiri en Völsungur og Sindri sem eru í sætunum fyrir neðan, en KV rekur lestina í neðsta sæti og eru líklega að kveðja þessa deild.

Næsti leikur KF gegn Dalvík/Reyni á Ólafsfjarðarvelli, miðvikudaginn 16. ágúst.

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.

Byrjunarlið
Varamannabekkur