KF spilaði sinn þriðja leik á Norðurlandsmótinu á föstudaginn síðastliðinn er þeir mættu Völsungi frá Húsavík. Völsungur skoraði fyrsta mark leiksins strax á 6. mínútu, en KF jafnaði leikinn á 19. mínútu með marki frá Erni Elí (skv. KSÍ), með skoti utan vítateigs. KF misnotaði svo gott færi þremur mínútum síðar, en markvörður Völsungs varði vel. Völsungur komst svo yfir á 33. mínútu og var staðan 2-1 í hálfleik. Fimmtán mínútum fyrir leikslok skoraði Völsungur sitt þriðja mark, 3-1 og aftur í uppbótartíma með skallamarki eftir hornspyrnu, lokatölur 4-1 fyrir Völsung.  KF hefur því unnið einn leik og tapað tveimur, en liðið á einn leik eftir á móti Fjarðarbyggð þann 29. janúar. KF liðið var aðeins breytt frá síðasta leik, en þó voru nokkrir nýjir leikmenn á prufu sem kemur svo í ljós hvort samið verður við.