Knattspyrnufélag Fjallabyggðar(KF) tapaði fyrir HK 0-2 í undanúrslitum B-deildar Lengjubikars karla í Boganum á Akureyri í dag. HK mætir því Njarðvík í úrslitaleik keppninnar þriðjudaginn 1. maí.
Ívar Örn Jónsson skoraði fyrsta markið á 22. mínútu fyrri hálfleiks með skoti í varnarmann og inn. Það verður kannski skráð sem sjálfsmark.
HK var meira með boltann í fyrri hálfleik en KF áttu hættulegar skyndisóknir. Úr einni þeirra fengu þeir dauðafæri og gátu jafnað metin en Beitir Ólafsson í marki HK varði glæsilega.
Eftir góð færi á báða bóga þar sem Bjarki Már Sigvaldason átti skalla rétt yfir mark KF og HK bjargaði síðan á marklínu, en komst HK í 2:0 á 75. mínútu. Þá prjónaði Sölvi Víðisson sig í gegnum vörn KF, lék á markvörðinn og sendi boltann í tómt markið.
Keppni KF er þar með lokið í Lengjubikarnum þetta vorið, en félagið hefur aldrei komist svo langt í keppninni og gefur það góð fyrirheit fyrir Íslandsmótið í sumar.