KF mætti Völsungi frá Húsavík á Norðurlandsmótinu í knattspyrnu á sunnudaginn í Boganum á Akureyri. KF komst yfir í fyrri hálfleik og missti mann útaf í seinni hálfleik en náðu að halda út og náðu því 5. sætinu á mótinu. Samkvæmt leikskrá KSÍ þá voru 40 áhorfendur á þessum leik. Leikskýrslu KSÍ má sjá hér. Nánari lýsing hér að neðan:

Leikurinn byrjaði rólega en fyrsta alvöru færið fékk Völsungurinn Ásgeir Sigurgeirsson á 10. mínútu en hann skallaði yfir úr upplögðu færi. KF náði betri tökum í leiknum og spiluðu vel sín á milli. Þeir uppskáru eina mark leiksins á 17. mín en þá áttu þeir gott spil inní teig sem endaði með góðu skoti Agnars Þórs í fjærhornið.

Á 30. mínútu var Agnar Þór aftur aðgangsharður við mark Völsunga en þá náði hann að skjóta yfir Ingólf Örn í marki Völsungs en varnarmenn náðu að bjarga í horn. Hornið var gott og náði Milos góðum skalla að marki sem var varinn og Sigurbjörn Hafþórsson átti skot sem var varið. Á 36. mínútu fengu Völsungar aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, Arnþór Hermannsson átti gott skot að marki en Halldór Guðmundsson í marki KF varði vel. Á lokamínútu uppbótartíma fékk Agnar Þór upplagt færi en í stað þess að skjóta þá reyndi hann sendingu en Völsungar komust inní og björguðu í horn.

Völsungar byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og strax á fyrstu mínútu átti Sindri Ingólfsson gott skot sem fór naumlega framhjá. Á 51. mínútu náði Hafþór Mar Aðalgeirsson að renna sér í gegnum vörn KF en ágætt skot hans var vel varið af Halldóri í markinu. Á 56. mínútu fækkaði í liði KF en Kristján Vilhjálmsson fékk þá gult spjald fyrir brot en það var seinna gula spjaldið sem hann fékk í leiknum. Á 60. mínútu átti Arnþór gott skot að marki KF en Halldór náði að verja í þverslá og út í teig. Á 67. mín átti títtnefndur Arnþór góða sendingu úr aukaspyrnu inná teig en varnarmenn KF náðu að bjarga í horn á seinustu stundu.

Á 69. mínútu komst Arnór Hallsson upp kantinn og átti góða sendingu fyrir markið en Ingólfur Örn var vel vakandi í markinu og bjargaði með góðu úthlaupi. Völsungar fengu svo tvö ágæt færi, fyrst á 73. mínútu en þá átti Arnþór gott skot en framhjá og á 75. mínútu komst Sindri einn gegn Halldóri í markinu en skotið var fast og vel yfir. Á 88. mínútu náðu Völsungar að skora en það mark var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Lokafæri leiksins fékk KF, en þá náði Gabríel Reynisson skoti framhjá Ingólfi markmanni Völsungs en Bjarki Þór Jónasson rétt náði að hlaupa eftir boltanum og bjarga á línu.

KF lenti í 5. sæti á Hleðslumótsins, en Völsungar hafnaði í því 6.