Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Magni frá Grenivík mættust í 2. deild karla í 6. umferð Íslandsmótsins í gærkvöldi, en leikurinn fór fram á Dalvíkurvelli, þar sem Ólafsfjarðarvöllur er enn ekki tilbúinn fyrir sumarið.

Þetta eru  tvö lið sem gjörþekkja hvort annað og mætast reglulega í öllum keppnum. Liðin mættust í bikar og deildarbikar nú í vor og vann Magni bikarleikinn en KF deildarbikarleikinn. Þá mættust liðin í deildinni í fyrra og vann þá KF heimaleikinn og fór jafntefli á Grenivík.

KF var enn án sigurs fyrir þennan leik, en hafði gert fjögur jafntefli og tapað einum leik. Magni hafði unnið 1 leik, gert eitt jafntefli og tapað þremur leikjum fyrir þennan leik.

Leiktímanum var seinkað um 30 mínútur, en það hafði engin áhrif á KF strákana sem voru mættir til að taka öll stigin. KF byrjaði leikinn betur og skoraði Þorvaldur Daði á 24. mínútu og kom heimamönnum í 1-0. Hans fyrsta mark í deildinni sumar fyrir KF. Skömmu áður þurfti KF að gera skiptingu vegna meiðsla, þegar Sævar Þór Fylkisson fékk skiptingu og inná kom Atli Snær Stefánsson.

Á 37. mínútu meiddist Cameron Botes hjá KF og kom Auðun Gauti inná fyrir hann. KF leiddi í hálfleik 1-0 en hiti var í mönnum og var dómarinn búinn að lyfta gula spjaldinu sex sinnum.

Magni gerði eina skiptingu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og tvær aðrar í hálfleik, en þeir voru staðráðnir í að reyna jafna leikinn.

Hákon Leó kom inná fyrir Grétar Áka hjá KF á 53. mínútu, en hann hefur mátt verma bekkinn í undanförnum leikjum.

Á síðustu tíu mínútum leiksins valtaði KF hreinlega yfir Magna og kom inn þremur mörkum.  Hrannar Snær skoraði á 79. mínútu og kom KF í góða stöðu 2-0, mikilvægt mark. Auðunn Gauti skoraði þriðja mark KF á 84. mínútu, hans fyrsta mark í deildinni í sumar.

Atli Snær skoraði svo í uppbótartíma og kom KF í 4-0, en hann hafði komið inná í fyrri hálfleik vegna meiðsla hjá Sævari Þór.

Frábær leikur hjá KF og stórsigur á nágrönnum í Grenivík. Fyrsti sigur sumarsins í deildinni í hús.