Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í 17. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu á Ólafsfjarðarvelli. KF vann fyrri leik liðanna í sumar 1-2 og vildu grannarnir frá Dalvík ekki láta það endurtaka sig. Liðin gjörþekkja hvert annað og eru þetta miklir baráttuleikir. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.
Upphitun:
KF var án varnarmannsins Jordan Damachoua en hann tók út leikbann vegna fjögurra gulra spjalda. Þjálfari KF og varamarkmaður var einnig í banni en Dóri lék síðasta leik í markinu til að leysa Javon af sem var í fæðingarorlofi. Javon var aftur kominn í markið í þessum leik og formaður félagsins skráður sem þjálfari. Það voru því Örn Elí Gunnlaugsson sem var þjálfari KF í þessum leik og óvænt nafn á bekknum með honum, en Hilmar Sterki Símonarson var honum til aðstoðar, en hann hefur ekki verið á bekknum áður hjá félaginu.
Fransisco Eduardo var kominn aftur í lið KF eftir að hafa verið aðstoðarmaður þjálfara frá því í byrjun júlí, en hann lék fyrstu mótsleikina í upphafi tímabils en svo ekki meir vegna meiðsla. Kærkomið að fá hann aftur í liðið í fjarveru Jordans.
Dalvík/Reynir gat með sigri komist í efsta sæti deildarinnar með hagstæðum úrslitum annara leikja. KF gat með sigri eða jafntefli tryggt betur 9. sætið í deildinni, en aðeins 2 stig eru í fallsæti deildarinnar. Dalvík spilaði sínu besta liði í dag enda mikið í húfi á toppnum.
KF var eina lið deildarinnar sem hafði ekki enn gert jafntefli í fyrstu 16 umferðum Íslandsmótsins.
Mikil barátta er á toppnum, en þegar 16 leikjum var lokið höfðu sex efstu liðin unnið 8 leiki, en gert mismörg jafntefli.
KF hafði unnið tvo leiki í röð fyrir þennan leik og þrjá leiki af síðustu fimm. Það voru því nokkrar væntingar um góð úrslit í þessum leik. Dalvík hafði einnig unnið þrjá leiki af síðustu fimm, en þeir hafa sterkt lið í ár og fá á sig fá mörk í deildinni og eiga mjög góða möguleika að komast upp um deild.
Umfjöllun:
KF bjuggu til stemningu fyrir leik og grilluðu pylsur fyrir áhorfendur. Veður var milt, rúmar 12 gráður á mælinum og næstum því logn á Ólafsfjarðarvelli.
Gestirnir komu ákveðnir til leiks og skoruðu fyrsta markið á 13. mínútu, en þeirra nýjasti leikmaður Florentin Apoustu er fljótur framherji sem fer vel með boltann. Hann skoraði sitt annað mark í þremur leikjum fyrir D/R. Staðan var 0-1 fyrir gestina í hálfleik.
KF gerði tvöfalda skiptingu á 58. mínútu og kom Daniel Kristiansen inná ásamt Dagbjarti Búa Davíðssyni. Útaf fóru Þorsteinn Þorvaldsson og Marinó Snær Birgisson.
Dalvík/Reynir gerðu tvöfalda skiptingu þegar um 20 mínútur voru eftir en Viktor Daði og Jóhann Örn komu inná fyrir Sigfús Gunnarsson og Florentin Apostu.
Dalvík/Reynir skoraði svo annað mark en dómarinn dæmdi víti á 79. mínútu og var það þeirra besti og hættulegasti leikmaður síðustu árin, Borja Laguna sem steig á punktinn og skoraði. Staðan orðin 0-2 og gestirnir í góðum málum. Þetta var 8. mark Borja í 14 leikjum í sumar.
KF gerði aðra tvöfalda skiptingu sem kom á 85. mínútu en inná komu Jón Frímann Kjartansson og Akil De Freitas, en útaf fóru Aron Elí og Vitor. Dalvíkingar gerðu einnig þrjár skiptingar á lokamínútum leiksins.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og komst Dalvík á topp deildarinnar með þessum sigri þar sem Völsungur vann KFA óvænt.
Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.
Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.